150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

trúnaðarmaður fólks með langvinna sjúkdóma og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila.

605. mál
[18:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem snýst um trúnaðarmann fólks með langvinna sjúkdóma og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila. Hv. þingmaður spyr hvort ég telji þörf á að tilnefndur verði trúnaðarmaður fólks í slíkri stöðu eða annar talsmaður þessara hópa.

Ég tel rétt í svari mínu að ég víki nokkrum orðum að þingsályktunartillögu sem var beint til félags- og barnamálaráðherra af hv. þingmönnum Ingu Sæland og Guðmundi Inga Kristinssyni og snerist um hagsmunafulltrúa aldraðra. Þar var hugsunin sú að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, meira kannski á landsvísu, eða eitthvert slíkt embætti og leiðbeina þeim um réttindi sín, hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum eldri borgara o.s.frv. Þó að þeir málaflokkar séu mikilvægir heyra þeir undir félagsmálaráðherra, þannig að þetta er auðvitað ákveðin skörun sem hér er um að ræða. En ég skil hv. þingmann þannig að hér sé verið að tala um trúnaðarmann til úrlausnar mála sem lúta að heilbrigðisþjónustu. Þess vegna miðast svar mitt við þann þátt og þá er auðvitað að mörgu að hyggja.

Í fyrsta lagi vil ég segja að umræðan sem kemur hér upp er að gefnu tilefni. Það er að gefnu tilefni að þær vangaveltur vakna hvort með núverandi fyrirkomulagi sé algerlega tryggt að óskum, vilja o.s.frv. þeirra sem eru langveikir og eru íbúar á hjúkrunarheimilum sé til haga haldið. Jafnframt eru örugglega dæmi um að fólk telji að það hafi ekki nægilega greiðan aðgang að upplýsingum o.s.frv. Og af því að hér er líka rætt um stöðu ættingja og fjölskyldunnar þá geta verið flókin samskipti í fjölskyldum þó að um sé að ræða einstakling sem er kannski elstur í þeirri fjölskyldu sem er á hjúkrunarheimili og á rétt á sinni mannhelgi, af því að það er eitt af því sem við ræðum hér, og sinni virðingu óháð mögulega flóknum fjölskyldutengslum og vanda sem ekki hefur verið til lykta leiddur á fyrri stigum í fjölskyldusögunni. Það er líka mikilvægt að hafa í huga.

Hv. þingmaður velti því upp í lokin á fyrirspurn sinni, kannski sérstaklega í málum sem lúta að stöðu fólks með heilabilun. En þá erum við í raun að ræða um enn mikilvægari verkfæri sem þyrftu að vera fyrir hendi til að tryggja að allra leiða sé leitað til að kalla eftir og skilja þann vilja sem er fyrir hendi hjá viðkomandi einstaklingi. Við eigum sem samfélag að ganga mjög langt í því, hjá því fólki sem af einhverjum ástæðum hefur ekki stöðu til að greina frá eigin vilja eða eigin forgangsröðun, að leita leiða til að kalla eftir þeim vilja og koma honum til framkvæmda. Það er auðvitað mikilvægt samt í þessari umræðu að fram komi að það felst í starfi heilbrigðisstarfsmanna að liðsinna skjólstæðingum sínum og raunar er það lögbundin skylda þeirra sem opinberra starfsmanna. Í 14. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna segir:

„Starfsmanni er skylt að veita þeim sem til hans leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, þar á meðal að benda þeim á það, ef svo ber undir, hvert þeir skuli leita með erindi sín.“

Það er því mikilvægt að við höldum því líka til haga hverjar eru skyldur þeirra sem sinna þjónustu við íbúa á hjúkrunarheimilum og þá sem búa við langvinna sjúkdóma.

Í þessu samhengi má einnig nefna að í kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytisins um rekstur heilsugæsluþjónustu kemur líka fram að heilsugæslan eigi að vera virkur þátttakandi í upplýsingamiðlun og samhæfingu á þjónustu við sjúklinga. Það er líka gert ráð fyrir ákveðnum leiðum til að koma athugasemdum á framfæri, hafi skjólstæðingur athugasemdir. Ég veit að hv. þingmaður veit um þessar leiðir. Það er hægt að beina kvörtunum til yfirstjórnar, það eru leiðir hjá embætti landlæknis o.s.frv. En ég veit að hv. þingmaður er einmitt ekki að tala um það heldur kannski miklu frekar það sem lýtur að daglegu lífi. Félag eldri borgara og ýmis sjúklingasamtök hafa líka staðið vörð um hagsmuni þessara hópa og vilja setja þetta mál á dagskrá.

Ég vil í lok fyrra svars míns þakka hv. þingmanni fyrir að setja þetta á dagskrá því að ég held að umræðan sé brýn og tengist því sem hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson og við munum ræða hér á eftir um mannhelgi, þ.e. að allir eigi rétt til þess að borin sé virðing fyrir þeim og þeirra rými óháð stöðu þeirra að öðru leyti.