150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

trúnaðarmaður fólks með langvinna sjúkdóma og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila.

605. mál
[18:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel mjög brýnt að við tökum þessa umræðu, hvernig svo sem útfærslan yrði á einhverju slíku, það er kannski ekki alveg aðalatriðið, heldur það að fólk sem er komið á þann stað að þurfa að dvelja langdvölum inni á heilbrigðisstofnun — ungt fólk, eldra fólk, fólk á miðjum aldri, þetta geta verið alls konar einstaklingar sem þar eiga hlut að máli — hafi möguleika á að halda fullri reisn og geti fylgt sínum málum, óskum og vilja eftir. Það sé farvegur til þess án þess að menn þurfi að fara með slík mál til landlæknis eða lengra í einhverjum kvörtunarstíl, heldur hafi vissan einstakling sem hægt er að treysta fyrir einhverju sem hefur komið upp og geti borið sig upp við hann um það hvað best sé að gera og leitað réttar síns og spurt út í ýmsa hluti sem snúa að heilsu og líðan viðkomandi.

Hæstv. ráðherra nefndi að í raun væri hverjum heilbrigðisstarfsmanni skylt sem slíkum að sinna þessu hlutverki með einhverjum hætti og ég velti því upp. Við þekkjum að réttargæslumenn eru fyrir fatlaða og má segja að þetta sé kannski dálítill vísir að því að hægt væri að hugsa sér að sjúklingur sem þess óskaði gæti óskað eftir því við heilbrigðisstarfsmann, á þeim stað sem hann er, að vera trúnaðarmaður hans. Ef viðkomandi myndi treysta sér í að vera það þá held ég að það gæti verið eitt af því sem væri ákveðin lausn í þessu, a.m.k. að prófa eitthvað slíkt.