150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

trúnaðarmaður fólks með langvinna sjúkdóma og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila.

605. mál
[18:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta sýnir hvers þessi dagskrárliður er megnugur, það verða til hugmyndir hér undir liðnum og við erum bara að velta vöngum yfir því hvernig verður með skýrustum hætti, miðað við núverandi lagagrunn, komið til móts við þessa þörf. Ég held að það sé líka mikilvægt að við séum ekki endilega að finna upp einhverjar nýjar leiðir þegar þær eru kannski fyrir hendi.

Mér finnst þessi hugmynd hv. þingmanns afar góð og ég held að hún sé hugmynd sem væri vel hægt að útfæra á einstökum hjúkrunarheimilum og prófa sig áfram með það að íbúarnir fengju tengilið og þeir gætu mögulega valið sér tengilið eftir einhvern tíma eða trúnaðarmann, eða hvað við myndum kalla það. Það er kannski svolítið hliðstætt við það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefnir sem einhvers konar samhæfingaraðila þjónustunnar — ég þori ekki annað, virðulegur forseti, en að tala íslensku hér. En svo finnst mér kannski svolítið áhugavert það sem hefur komið upp áður þegar við höfum verið að ræða þjónustu við aldraða, umræða sem kom upp sem snerist um þá staðreynd að þjónustuþörfin eykst smám saman eftir því sem fólk eldist. Hún byrjar á því að snúast um þörfina fyrir einhverja heimaþjónustu og mögulega mat heim eða eitthvað slíkt og síðan smám saman breytist þörfin í heimahjúkrun og aukna þjónustu heim, dagþjálfun og síðan hjúkrunarheimili. Það má velta fyrir sér hvort það ekki sé eðlilegast að hugsa sér það þannig að einstaklingurinn sem þjónustunnar nýtur sé fyrst um sinn teymisstjóri sjálfur eða sjálf í því að samhæfa þjónustuna og sitji við borðsendann í því að stilla saman strengi hvernig best sé að veita þjónustuna.

Ég veit að það er svolítill viðsnúningur frá því sem við erum vön að hugsa. En ef við setjum okkur sjálf í þessi spor myndum við frekar vilja vera meira eigin gæfusmiðir í því þar til auðvitað er komið að því að við ráðum ekki við það og þá þurfi það að gerast með eðlilegum og þeim hætti að borin sé virðing fyrir fólki.

(Forseti (ÞorS): Forseti ánýjar í góðsemd að íslenska er þingmálið.)