150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

629. mál
[18:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Mannhelgi er stór þáttur á málefnasviði hæstv. heilbrigðisráðherra og grundvallarhugsunin um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, sem telja má hluta mannhelgi, nær til atriða eins og réttinda sjúklinga, meðferðar persónuupplýsinga og óafturkræfra inngripa í líkama einstaklinga sem tilheyra m.a. viðkvæmum hópum. Einnig má segja að mannhelgi nái til þess að leyfa fólki að taka ákvarðanir um inngrip í líkama sinn, hafna slíkum inngripum og taka jafnvel upplýstar ákvarðanir sem flestum öðrum þættu óskynsamlegar.

Fyrir velferðarnefnd er þingsályktunartillaga hæstv. heilbrigðisráðherra um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Í tillögunni er mannhelgi einmitt eitt af lykilhugtökunum og raðað efst af þeim siðferðilegu gildum sem höfð skulu að leiðarljósi við forgangsröðun. Þannig er gengið út frá því að fá ef nokkur gildi séu mikilvægari þegar teknar eru grundvallarákvarðanir. Virðing fyrir mannhelgi verður þannig alltaf í forgrunni og er undirstaða annarrar afstöðu og grundvöllur ákvarðana.

Velta má fyrir sér hvort yfirleitt sé hægt að skilgreina hugtakið í eitt skipti fyrir öll og jafnvel hvort það sé æskilegt. Þannig má hugsa sér að sýn manna á hvað er mikilvægast í mannhelgi kunni að vera allt önnur nú en var til að mynda fyrir 100 árum og muni breytast á næstu 100 árum. Þannig má velta fyrir sér hvort með framþróun í vísindum og tækni sé óhjákvæmilegt að hver kynslóð skilgreini fyrir sig hugtakið. Fyrir 100 árum var aðgengi að alls konar persónulegum upplýsingum t.d. allt annað en í dag. Þær upplýsingar sem þá þóttu mikilvægastar eru kannski ekki mikilvægar í dag og öfugt. Vernd upplýsinga um einstaklinginn er talin mikilvæg í dag, í raun séð sem einn angi af virðingu fyrir mannhelgi. Hugtök eins og persónulegt rými þekktust varla í upphafi síðustu aldar. Þá eigum við jafnvel enn í erfiðleikum með að virða slíkt rými eða svæði. Þetta sést t.d. glöggt á heilbrigðisstofnunum úti um allan heim.

Starfshópur ráðherra um þvingaða meðferð skilaði nýlega tillögum til ráðherra, en þar er einmitt fjallað um afar viðkvæman hóp þar sem virðing fyrir mannhelgi einstaklingsins getur stangast á við sjónarmið um heilsuvá eða aðsteðjandi vanda sem heilbrigðiskerfið eða ættingjar meta á öðrum forsendum en hinn veiki. Því er enn mikilvægara en ella að umræða sem þessi sé lifandi innan heilbrigðiskerfisins og að meðvitund um mannhelgi sé til staðar. Einnig má hugsa sér að í menntun heilbrigðisstétta þurfi að vera pláss fyrir slík grundvallarhugtök og einnig í sí- og endurmenntun.

Þá má velta fyrir sér hvort stjórnvöld eigi ekki að beita sér sérstaklega fyrir umræðu meðal almennings um efnið. Í þessu sambandi koma til að mynda fram á þessum erfiðu tímum alls konar fréttir sem sýna okkur svo ekki verður um villst hversu mikilvægt er að hugtakið og vangaveltur um það séu sífellt í umræðunni. Ég vísa að lokum til spurninganna, herra forseti.