150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

629. mál
[18:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um hugtakið mannhelgi í þremur liðum. Þingmaðurinn spyr í fyrsta lagi hvort ráðherrann telji að skilgreiningin sé fullnægjandi í lögum á málefnasviði ráðuneytisins. Í lögum á málefnasviði heilbrigðisráðuneytisins er vísað tiltölulega víða til hugtaksins mannhelgi, t.d. í lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og í lögum um réttindi sjúklinga. Aftur á móti er ekki að finna beina orðskýringu á hugtakinu í þeim lögum sem falla undir málefnasviðið en í lögskýringargögnum sem fylgja lögunum er aftur á móti að finna efni sem er ætlað að skýra hugtakið. Þar er t.d. vísað til Lögfræðiorðabókarinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Því er í raun ekki hægt að svara því hvort hugtakið sjálft sé skilgreint með fullnægjandi hætti í lögum. Það er ekki skilgreint beint í lögum heldur með lögskýringargögnum sem vísa í önnur gögn.

Í lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði er hugtakið t.d. skýrt í greinargerð frumvarpsins en ekki í lögunum sjálfum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í mannhelgi felst samkvæmt útskýringu Lögfræðiorðabókarinnar lögvernd þeirra réttinda sem standa næst manninum, þ.e. lífs, lima, æru og einkalífs. Í 2. mgr. ákvæðisins er tiltekið að við skipulag og framkvæmd vísindarannsókna á heilbrigðissviði skuli sjónarmið siðfræði, vísinda og persónuverndar höfð að leiðarljósi.“

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra telji að hugtakið mannhelgi mætti koma skýrar fram í lögum á málefnasviði ráðuneytisins eða með öðrum hætti. Þá er því til að svara að hugtakið er hvergi skýrt með beinum hætti í löggjöf núna, eins og fram hefur komið, heldur er það notað í ákveðnum lögum og inntakinu lýst í greinargerðum. Það gæti verið skynsamlegt að skilgreina hugtakið betur í lagatexta á málefnasviði heilbrigðisráðherra en eins og hv. þingmaður kemur að í spurningu sinni kann að vera að skilningurinn á hugtakinu ráðist að hluta til af tíðarandanum hverju sinni og annarri þróun, hugtakaþróun, stöðu mannréttinda og annarra slíkra þátta.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra telji mögulegt að samræma skilgreiningu á hugtakinu eða á tilteknum grunnþáttum þess, t.d. í lögum á málefnasviði ráðuneytisins. Það er mögulegt að samræma skilgreiningar á hugtökum í lögum. Slíkt krefst hins vegar undirbúnings og mikillar vinnu svo að vel takist. Eins og fram kemur í spurningu hv. þingmanns þá mælti ég nýverið fyrir tillögu til þingsályktunar um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu þar sem mannhelgi er eitt af þeim gildum sem lagt er til að höfð verði að leiðarljósi. Hér er hugtakið fyrst og fremst skilgreint miðað við ákveðinn tilgang, þ.e. forgangsröðun í íslenskri heilbrigðisþjónustu, sem verkfæri nánast. Aftur á móti er ekkert sem kemur í veg fyrir að litið sé til þeirrar skilgreiningar við samræmingu á lögum á málefnasviðinu. Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni segir að mannhelgi sé skilgreind sem „rými sem sérhver manneskja á óskoraðan rétt yfir og felur í sér áherslu á virðingu fyrir mannlegri reisn hvers og eins við allar mögulegar aðstæður“. Einnig segir að í hugtakinu felist að: „allir menn séu jafnir og eigi sama rétt til verndar lífs og viðhalds heilbrigðis og að viðurkennd og almenn réttindi séu virt.“

Þannig þarf að virða þessi sjónarmið svo að mannhelgi einstaklings sé virt. Þá felst enn fremur í hugtakinu ákveðin virðing gagnvart sjálfræði notenda heilbrigðisþjónustu eins og við vikum aðeins að í fyrri umræðu. Mikilvægi mannhelgi er undirstrikað í þingsályktunartillögunni þar sem mannhelgi skal ganga framar öllum öðrum gildum tillögunnar og vera til grundvallar fyrir þau. Það er mikilvægt að gildin séu höfð að leiðarljósi við ákvörðunartöku í heilbrigðismálum, bæði hjá stjórnvöldum, stjórnendum í heilbrigðiskerfinu og heilbrigðisstarfsfólki. Það athugast að hugtakið mannhelgi í þessari þingsályktunartillögu er að nokkru leyti túlkað með rýmri hætti en eingöngu út frá sjónarmiðum t.d. um friðhelgi einkalífs. Hér er um að ræða siðferðilegt gildi sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar við forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu og nær yfir að allir menn séu jafnir og eigi sama rétt til verndar lífs og viðhalds heilbrigðis, þannig að þetta er tiltölulega víð skilgreining, og að viðurkennd og almenn réttindi séu virt, þetta er sem sagt jafnræðiskrafan og réttlætiskrafan. Þannig er það t.d. að einhverju leyti rýmra en t.d. skilgreining Lögfræðiorðabókarinnar á hugtakinu mannhelgi sem vísað er til í greinargerð með lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

Eins og hér hefur verið farið yfir hefur það bæði kosti og galla að fara í það að skilgreina hugtak af þessu tagi með kirfilegum hætti í lagatexta. Það má hins vegar segja að með því að hv. velferðarnefnd ljúki við umfjöllun á þingsályktunartillögu um gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu þá sé nefndin með vissum hætti að glíma við þessa skilgreiningu og það hvort hún sé sett fram með fullnægjandi hætti þar og hvort í fyllingu tímans mætti draga af því almennar ályktanir um sambærilegt hugtak í löggjöfinni.