150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

629. mál
[19:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir athugasemdina. Ég er nefnilega sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns að hér þarf að stíga varlega til jarðar. Þess vegna er umræðan svo mikilvæg. Þess vegna er svo mikilvægt að við áttum okkur á því hvað við erum að tala um og að við leitum þá á mörg málefnasvið til að sjá og fá tilfinningu fyrir því hvað menn eru að pæla. Hvaða hugsanir kunna að vera í gangi á hverjum stað? Hugtakið er nefnilega sannarlega víða skilgreint, innan gæsalappa, en það er hvergi klappað í stein nema þá í þeim sáttmálum sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefndi. Þar er það að vissu leyti klappað í stein en þó í rauninni sem hugtakið mannleg reisn fremur en mannhelgi, sem væri þá frekar þar sem hefur verið kallað á ensku „human sanctity“. Herra forseti fyrirgefur þessa enskuslettu, vænti ég. Það eru því flóknar vangaveltur í þessu.

Hæstv. ráðherra kom inn á mikilvægið sem felst t.d. í þessu, annars vegar í jafnræðishugtakinu og hins vegar réttlætishugtakinu, það skiptir alveg gríðarlega miklu máli vegna þess að við verðum að velta fyrir okkur: Má einhver annar en ég sjálfur taka ákvarðanir um kjarnagildi mín og ef svo er, verð ég þá ekki sjálfur að ákveða hverjir það kynnu að vera og má ég ekki alltaf skipta um skoðun? Það þurfum við að hafa í huga.