150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

629. mál
[19:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn hv. þingmanni og líka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir hans athugasemd. Það er ekki oft sem við ræðum mál af þessu tagi hér í þingsal, þar sem við erum að ræða gildi, algild hugtök, mikilvægi þeirra, sameiginlegan skilning í samfélögum í dýrmætum textum eins og mannréttindasáttmálum, stjórnarskrám o.s.frv. og hvaða þýðingu það hefur síðan sem grundvöllur löggjafar og ákvarðanatöku í réttlátu og góðu samfélagi. Við tölum eiginlega aldrei um það. En við ættum kannski bara eiginlega alltaf að vera að tala um það af því að ef við værum með skýran kompás þá værum við kannski klárari á því hvert við værum að fara.

En það er einmitt þess vegna, af því að hér hefur líka verið talað um víðtæka samfélagslega umræðu, sem ég lagði áherslu á það að á heilbrigðisþingi síðasta haust töluðum við í heilan dag bara um gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Sérfræðingar, heimspekingar, læknar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar og stjórnmálafólk talaði um það: er það til góðs að við komum okkur saman um það með þinglegri meðferð að leggja grunn að sameiginlegum skilningi um forgangsröðun og gildi í heilbrigðisþjónustunni? Svarið okkar var afdráttarlaust: Já, það er til gagns að gera það. Sums staðar í löndunum í kringum okkur hefur verið gengið enn lengra þar sem textar af þessu tagi eru partur af löggjöfinni. Við erum að freista þess að byrja svona, að hafa þetta inni í þingsályktunartillögu og þingsályktun sem væri þá eins þverpólitísk og hægt væri vegna þess að slík vinna má ekki standa og falla með ríkisstjórn eða snúast á hvolf með kosningum. Ég hef mjög miklar væntingar til þessarar vinnu og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta kúnstuga málefni hér á dagskrá vegna þess að það er sannarlega svolítið þannig að maður upplifir að maður sé einhvern veginn kominn í annars konar málstofu en þegar maður er að ræða mál sem tilheyra dagsins önn. En kannski er þetta mikilvægasta umræðan.