150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

viðbrögð við lagafrumvörpum um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými.

658. mál
[19:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka vel í fyrirspurn mína. Það er óumdeilt að mikil og almenn áfengisnotkun og notkun annarra vímuefna hefur alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild; heilsubrest, slys, atvinnuleysi og langvarandi félagsleg vandamál. Umtalsverður árangur hefur náðst hér á landi í því að draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu meðal ungs fólks. Staðan á meðferðarheimilum er hins vegar grafalvarleg. Þau eru rekin með takmörkuðu fjármagni og er aðbúnaður og fjöldi starfsmanna misgóður, hundruð vímuefna- og áfengissjúklinga eru á biðlistum eftir meðferð. Vandi samfélagsins verður alvarlegri. Geðdeild Landspítalans fer ekki varhluta af ástandinu og þar er staðan afar þröng og oft alvarleg. Á sama tíma eru lögð fram lagafrumvörp sem beinlínis er ætlað að auðvelda neyslu fíkniefna og auka aðgengi að áfengi. Fjárhagslegur arður af því að styrkja og hjálpa fólki að öðlast heilbrigði er reiknaður í milljörðum króna og hagnaður einstaklings af því að öðlast starfshæfni og lífsgæði verður ekki metinn til fjár. Á bak við hvern einstakling sem er í neyslu er fjöldi aðstandenda, foreldrar og börn.

Virðulegi forseti. Það á að hjálpa fólki til aukinna lífsgæða og starfshæfni. Því er eftir miklu að sækjast þegar rætt er um að styrkja stöðu meðferðarheimila í landinu. Því spyr ég ráðherra:

1. Hefur ráðherra áætlanir um hvernig heilbrigðiskerfið muni bregðast við ef biðlistar meðferðarheimila fyrir áfengis- og fíkniefnasjúklinga lengjast, verði lagafrumvörp um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými samþykkt?

2. Liggur fyrir kostnaður af áhrifum áðurnefndra lagafrumvarpa á heilbrigðiskerfið, ríkissjóð og samfélagið í heild, verði þau að lögum og ef ekki, væri þá ekki skynsamlegt að slíkt kostnaðarmat lægi fyrir?

3. Verður hjá því komist að auka möguleika áfengis- og fíkniefnasjúklinga á því að nýta sér meðferðarúrræði verði áðurnefnd frumvörp samþykkt?