150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

viðbrögð við lagafrumvörpum um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými.

658. mál
[19:19]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu sem við samþykktum í dag nálgast menn viðfangsefnið með mannúð og raunsæi að leiðarljósi, að gefinn sé gaumur að allstórum hópi sem verið hefur afskiptur og notið einskis skilnings; hópi sem við getum öll verið sammála um að við vildum að væri ekki til. En hann er þarna. Mér finnst nöturlegt að heyra það nefnt að með þessu sé verið að ýta undir ólöglega vímuefnaneyslu. Það er hrein afbökun. Þessi lagasetning, þessi breyting, er viðleitni til skaðaminnkunar og umhyggju; betri heilbrigðisþjónustu sem er sameiginlegur hagur okkar allra, ekki bara heilsufarslegur heldur líka fjárhagslegur. Horft er með berum augum upp á vanda sem blasir við okkur sem margir vilja þó skattyrðast út í. Vissulega er þetta lagalega umhverfi veitt enn um sinn, við erum á gráu svæði að hluta. En lögreglan og heilbrigðisyfirvöld hafa tekið þéttingsfast saman höndum og einsett sér að vinna farsællega í einu liði.

Virðulegur forseti. Mér finnst óhugnanlega stutt í viðhorfið: Éttu það sem úti frýs. Þú getur sjálfum þér um kennt.