150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

viðbrögð við lagafrumvörpum um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými.

658. mál
[19:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Í dag samþykktum við hér á Alþingi frumvarp um neyslurými, sem er ekki beint hægt að kalla fagnaðarefni en engu að síður er það mjög mikilvægt. Það er mikilvægt vegna þess að þar erum við vonandi að koma á fót úrræði fyrir afar viðkvæman hóp. Við erum að bæta þjónustu við hóp sem hefur átt í fá hús að venda. Það er afar mikilvægt. Þetta er eitt lítið skref í átt að því sem kallað hefur verið afglæpavæðing neyslu fíkniefna. Ég tel það mikilvægt. Nú sjáum við hvernig þetta úrræði reynist í íslensku samfélagi. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að hæstv. heilbrigðisráðherra skyldi lýsa því yfir í ræðu sinni áðan að gert er ráð fyrir að stjórnvöld komi áfram að fjármögnun þessa úrræðis. Það er mikilvægt því að við megum ekki horfa fram hjá því að þessi hópur er til í samfélaginu og við berum líka ábyrgð á honum eins og öðrum þjóðfélagsþegnum.