150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

viðbrögð við lagafrumvörpum um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými.

658. mál
[19:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni og ég bið hann að vera eins nákvæman í fyrirspurnum og kostur er. Hv. þingmaður notar orðið kostnaðarmat, en þegar talað er um kostnaðarmat er venjulega átt við þau útgjöld sem stafa beinlínis af viðkomandi frumvarpi verði það að lögum. Það er það kostnaðarmat sem vaninn er að ræða. Það er það kostnaðarmat sem ég á við í svari við fyrirspurn hv. þingmanns þegar ég tala um þær 50 milljónir sem hafa verið fráteknar til að koma til móts við uppsetningu neyslurýmis, væntanlega hér á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og ég sagði í svari mínu geri ég ekki ráð fyrir því, og ekki mínir sérfræðingar, ekki lýðheilsufræðingar, ekki landlæknisembættið, ekki aðrir þeir sem koma að gerð frumvarpsins, að aukaþrýstingur skapist á meðferðarheimili, hvorki á Hlaðgerðarkot, SÁÁ né aðra vegna þess að þetta er úrræði sem er til viðbótar. Því er ætlað að draga úr skaða þeirra sem neyta efnanna og mæta því fólki á þeim stað sem það er, þ.e. að halda fólki á lífi, draga úr skaða og auka lífsgæði þess og samfélagsins alls. Það er alls ekki við því að búast að frumvarpið leiði til fjölgunar fólks á biðlistum eftir meðferð.

Hv. þingmaður getur hins vegar ekki ætlast til þess að ég leggi mat á mögulegan samfélagslegan kostnað af þingmannamálum sem ekki hafa verið á mínu borði og enn síður af stjórnarmálum annarra ráðherra. Ég bið því hv. þingmann að vera nákvæmari í fyrirspurnum sínum ef hann óskar eftir svörum við þeim vegna þess að þannig náum við bestum árangri undir þessum lið.