150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

olíu- og eldsneytisdreifing.

573. mál
[19:30]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fínar spurningar. Svörin eru því miður nokkuð tæknileg en spurningarnar kalla kannski á það. Það er spurt um olíudreifingu og aðra eldsneytisdreifingu á landi og sjó og þær kröfur sem flutningsöryggi kallar á og hvernig geymslan er og þarfir vegna þjóðaröryggisstefnu.

Þörf á geymslu og eldsneytisdreifingu í héraði út frá þjóðaröryggisstefnu er mat sem þarf að fara fram í ljósi óveðranna. Ég segi þarf, af því að það hefur ekki verið gert. Þjóðaröryggisráð framfylgir þjóðaröryggisstefnunni og er því á forræði þess að hafa eftirlit með því og meta þau málefni sem heyra undir stefnuna. Hins vegar hafa Samgöngustofa, Vinnueftirlitið og vegaeftirlit lögreglu það hlutverk að tryggja að flutningar á hættulegum farmi fari fram á öruggan hátt. Þessar stofnanir vinna eftir reglugerð um að tryggja að flutningur á hættulegum farmi fari fram á öruggan hátt og í reglugerðinni er kveðið á um að ökutæki sem flytja hættulegan farm skuli merkt sérstaklega þannig að það sjáist að um hættulegan farm sé að ræða. Einnig er kveðið á um tiltekinn öryggisbúnað sem skal vera í ökutækinu, slökkvitæki, hlífðarbúnað fyrir ökumann og aðstoðarmann og viðvörunarmerki. Þá eru ítarleg ákvæði um ábyrgð og skyldur sendanda og flutningsaðila hættulegs farms, sem sagt upplýsingar um vöruna.

Í samræmi við forsetaúrskurð frá 2018, um skiptingu stjórnarmálefna, fer samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið með samgöngur, samgönguöryggi og farmflutninga og málefni Samgöngustofu, en Vinnueftirlitið er hjá félagsmálaráðuneytinu og málefni lögreglu hjá dómsmálaráðuneyti. Hlutverk Samgöngustofu er að viðurkenna og skrá ökutækin sem notuð eru til flutnings á hættulegum farmi, halda námskeið fyrir þá sem öðlast heimild til að flytja slík efni, viðurkenna öryggisráðgjafa sem þessum aðilum er skylt að hafa og öryggisráðgjafar sjá til þess að farið sé að reglum og veita ráðgjöf, gefa skýrslur auk annarra atriða.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar að því er varðar flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófanir og viðurkenningar sem tilgreindar eru í tilskipun 68/2008.

Vegaeftirlit lögreglu hefur augljóslega umsjón með eftirliti á vegum úti með ökutækjum sem flytja hættulegan farm í samræmi við reglur um sérstakt vegaeftirlit lögreglu. Lögreglan setur jafnframt reglur um takmarkanir á flutningi á hættulegum farmi um jarðgöng. Ef ökutæki eða búnaður ökutækis er ekki í samræmi við reglur þar að lútandi er lögreglu heimilt að stöðva flutning þess eða senda ökutækið á tilgreindan stað þar sem það er lagfært áður en akstri er haldið áfram.

Við á Íslandi búum almennt við stöðugleika og öryggi en brýnt er að stjórnvöld sýni aðgát þannig að öryggi við flutning hættulegs farms sé tryggt. Regluverk á Íslandi um öryggi slíkra flutninga er í fullu samræmi við Evrópureglur og að því leyti tryggt eins og kostur er, svo fremi að við sinnum öllu eftirlitinu sem þær reglur segja okkur.

Hvaða lærdóm má draga af stöðu dreifingarinnar í fárviðrinu í desember? Þá verður bara að segja eins og er að ekkert í okkar ferlum eða reglugerðum segir okkur að upplýsingar skuli teknar saman, hvorki magn, fjöldi né eitthvað slíkt, þannig að við höfum ekki tölulegar upplýsingar. Það er kannski eitt af því sem við ættum að draga lærdóm af.

Varðandi lærdóm og viðbrögð hafa starfsmenn og verktakar Vegagerðarinnar útbúið varúðarviðmið vegna vinds fyrir stór ökutæki. Það mætti hins vegar skoða hvort ekki sé tilefni til að kynna viðmiðin betur fyrir ökumönnum og jafnvel hvort tilefni sé til að uppfæra þau viðmið og taka sérstakt tillit til hættulegs farms. Söfnun gagna um innflutning, geymslu og sölu á jarðefnaeldsneyti er á verkefnasviði atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og Orkustofnunar, þar með talin málefni er varða innflutning, geymslu og sölu jarðefnaeldsneytis og eftirlit, og verður ekki fjallað um þau atriði hér.

Það breytir þó ekki því að mikilvægt er að draga lærdóm af stöðunni sem kom upp í óveðrum vetrarins. Ég tel að við getum öll dregið lærdóm af því hvernig mætti koma í veg fyrir slíkt ófremdarástand sem skapaðist þegar fárviðri geisaði eins og þá, víða rafmagnslaust, sums staðar hitalaust, fjarskiptakerfið datt út og menn gátu jafnvel ekki nálgast olíu. Aðgerðastjórnun á heimavelli getur hér skipt sköpum og væntanlega geta almannavarnir, þ.e. þær reglur sem menn setja heima í héraði, tekið á nokkrum af þessum þáttum sem við gætum lært af og nýtt okkur.

Áhrif mengunarslysa á umhverfið, ef átt er við slík slys vegna flutninga, eru málefni er varða umhverfisvernd á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis samkvæmt 9. gr. forsetaúrskurðar, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur því ekki upplýsingar um áhrif mengunarslysa hér á landi. Þau eru sem betur fer fátíð og aftur vísast til þess öryggiskerfis sem við erum með og regluverks. En auðvitað er alltaf hægt að gera betur og það væri líka áhugavert að heyra hvernig það hefur gengið þar sem slík slys hafa átt sér stað, hvaða áhrif þau hafa haft á umhverfið.