150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

olíu- og eldsneytisdreifing.

573. mál
[19:35]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrr í þessum mánuði mælti samgönguráðherra fyrir frumvarpi um svæðisbundna flutningsjöfnun olíuvara og niðurlagningu flutningsjöfnunarsjóðs. Umsýslan var færð til hinnar ágætu Byggðastofnunar líkt og með svæðisbundna flutningsjöfnun. Lögin eru að uppistöðu til frá árinu 2011 og ætlað að jafna aðstöðumun á landsbyggðinni. Ráðherra fullyrti að með þessu yrði síður en svo dregið úr jöfnunarþættinum, hann væri mikilvægur. Í stað sérstaka gjaldsins á olíuvörur á nú að koma beint framlag úr ríkissjóði til svæðisbundinnar flutningsjöfnunar sem verður samkvæmt frumvarpinu 175 millj. kr. sem er fjármagnað með sérstöku vörugjaldi á olíuvörur. Upphæðin sem fer í þessa jöfnun á árinu 2020 samkvæmt fjárlögum er hins vegar 375 milljónir.

Er ekki augljóst, virðulegur forseti, að hér verður um stórfelldan niðurskurð til flutningsjöfnunar að ræða og enn frekar íþyngjandi fyrir landsbyggðina? Ráðherra sagði: Nei, gamla kerfið var kostnaðarsamt og úrelt og nýja kerfið á að skila því sama. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Er ég að misskilja eitthvað (Forseti hringir.) eða vill hæstv. ráðherra vera svo elskulegur að leiða mig í ljósið?