150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

ákvæði laga um vegi og aðra innviði.

632. mál
[19:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverðar spurningar. Varðandi skilgreiningu á innviðum eru allir innviðir mikilvægir að mati okkar í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, eðli máls samkvæmt, með tilliti til almannahagsmuna. Þeir eru allir skilgreindir í lögum, fjarskiptalögum, vegalögum, hafnalögum og lögum um loftferðir. Það er ekki tilgreint nákvæmlega hvar þessir innviðir eiga að vera eða liggja heldur hvernig þeir þurfa að vera til að uppfylla skilyrði hvers flokks. Nánari útfærsla er síðan jafnan í reglugerðum. Til að mynda er hægt að fella vegi af vegaskrá, hægt er að leggja niður flugvelli o.s.frv. Það er rétt að tiltaka sérstöðu hafna, en þær eru á forræði sveitarfélaga sem taka ákvarðanir um gerð þeirra og starfsemi.

Þeir innviðir sem teljast mikilvægastir á samgöngusviðinu eru sérstaklega tilgreindir sem grunnnet samgangna í samgönguáætlun þannig að það má kannski að leggja einhverja vigt í það.

Spurt er hvort ráðherra telji eðlilegt að krefja sveitarfélögin um kostnaðarmun vegna lagningar þjóðvega ef ágreiningur er þar á milli, hvort ráðherra sé tilbúinn að beita því ákvæði. Þá er rétt að geta þess að vegir eru lagðir í samræmi við skipulag sveitarfélaga, samanber 28. gr. vegalaga og skipulagslaga. Þjóðvegum skal valinn staður í samráði við Vegagerðina og er mikilvægt að gætt sé að því samráði. Vegagerðin gerir síðan tillögur að legu þjóðvega út frá tæknilegu mati með tilliti til umferðaröryggis og hagkvæmni. Ákvæði 3. mgr. 28. gr. vegalaga, sem þingmaðurinn vísar til í spurningu sinni, hefur ekki verið beitt til þessa, en Vegagerðin hefur hins vegar áskilið sér rétt til að beita ákvæðinu í einstaka tilvikum. Helst kemur til greina að beita því þegar skipulag leiðir til þess að ekki er fylgt ráðleggingum og tillögum Vegagerðarinnar um legu vega eða lögbundin samráðsskylda ekki virt. Það leiðir til minna umferðaröryggis og aukins framkvæmdakostnaðar. Ákvæðið gefur sveitarfélögunum svigrúm til að kjósa annan valkost en Vegagerðin leggur til, en þau greiða þá þann kostnað sem af hlýst.

Mín skoðun er sú að hvorki sé ástæða til að taka þetta val af sveitarfélögum né að láta aukinn kostnað lenda á ríkinu, haldi sveitarfélög sig við annan valkost en þann sem Vegagerðin telur heppilegri út frá kostnaði og umferðaröryggi. Ég tel sem sagt að þetta ákvæði eigi að vera þarna og því eigi að beita ef þær aðstæður koma upp.

Varðandi þörf á að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum og færa ákvörðunarvald sveitarstjórna á hærra stjórnsýslustig vil ég segja að að uppfylltum ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum kveða skipulagslög á um legu vega, gerð hafna o.s.frv. Ákvarðanir um að heimila framkvæmdir eru síðan teknar á grunni þeirrar löggjafar. Ákvörðun um að færa slíkar ákvarðanir til ríkisins væri jafnframt ákvörðun um að taka ákvörðunarvald og skipulagsvald frá sveitarfélögum. Það er stór ákvörðun sem ekki yrði tekin án umræðu. En ég vil nefna að við erum með nokkuð sem heitir landsskipulagsstefna og í þeim tilfellum þar sem við tölum um grunnkerfið, hringveginn eða einhverja slíka vegi eða meginstofnlínur raforkukerfisins eða eitthvað slíkt sem varðar landsmenn alla, er það mín skoðun að það ætti að hafa ríkari sess í landsskipulagsstefnu en ella. Það þarf vissulega að taka þá umræðu við sveitarfélögin, en ég er á þeirri skoðun að við ættum að horfa til Norðurlandanna, sem við berum okkur oft saman við. Þar hefur landsskipulagsstefnan miklu meira vægi. Hún segir meira til um hvernig sveitarfélögin eiga að að koma aðalskipulagi sínu á.

Ég vil líka benda á að við erum vissulega með í gangi heildarendurskoðun á mati á umhverfisáhrifum. Ég vil líka nefna að í tengslum við óveðrið í vetur var settur á laggirnar starfshópur og á mjög stuttum tíma fann sá hópur út einfaldari leið þar sem ágreiningur kemur upp um til að mynda línulagnir. Þar var beitt skipulagshugsun þar sem sveitarfélög gætu komið sér saman um eitthvað í svæðisskipulagi. Reyndin hefur verið sú að þau fara síðan heim til sín og breyta aðalskipulaginu ekki endilega í samræmi við svæðisskipulagið, en þarna var kominn á einhvers konar samráðsvettvangur til tryggja að þau gerðu það. Það er millileikur sem hjálpar sannarlega til. Ég er á þeirri skoðun að landsskipulagsstefna þurfi að taka af öll tvímæli um meginlínur í vegakerfi, raforkukerfi og þeim leiðum sem varða almenning allan í landinu, ekki bara einstaklinga í einstöku sveitarfélagi.