150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

ákvæði laga um vegi og aðra innviði.

632. mál
[19:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að segja um landsskipulagsstefnuna og sveitarfélögin að þessi umræða þarf að eiga sér stað. Hún hefur átt sér stað, sveitarfélögin hafa verið mjög upptekin af því. Sjálfur var ég í sveitarstjórn á þeim tíma og var upptekinn af því að viðhalda ákvörðunarvaldi sveitarfélags í skipulagsmálum hjá sveitarfélaginu. Ég var hræddur við landsskipulagsstefnuna, en hún hefði til að mynda hjálpað okkur á árunum 2005 og 2006 og 2007 við að byggja ekki endalaust af íbúðum úti um allt, sem leiddi síðan til gríðarlegs offramboðs. Það verður bara að viðurkennast að það þarf samræmda skipulagsstefnu og enginn annar en ríkið getur haft hana í landsskipulagsstefnu. Auðvitað þarf að hafa mikið samráð við aðila. Þar getum við tryggt að menn fari ekki efnahagslega mjög illa að ráði sínu. Við þekkjum einstök dæmi um framkvæmdir sem lent hafa uppi á skeri og verið þar jafnvel áratugum saman út af sambærilegum deilum, jafnvel þó að allir segi að það sé skynsamlegasta leiðin út frá almannahagsmunum. Ég held að við þurfum að ræða meira saman um þetta og tel að landsskipulagsstefnan verði að vera ríkari.

Varðandi aðkomu almennings er mjög mikilvægt að almenningur eigi möguleika á að koma að framkvæmdum. Það er mikilvægt að framkvæmdaraðilar kynni þær í upphafi. Við erum með sama regluverkið og annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er meira og minna samevrópskt regluverk og þess vegna er merkilegt ef útfærslan hjá okkur er eitthvað allt öðruvísi og endar öðruvísi. Það hlýtur vera grundvöllur þessarar heildarendurskoðun á því.

Ég vil taka undir það sem þingmaðurinn kom inn í lokin. Til að mynda er sú túlkun Skipulagsstofnunar upp á síðkastið, að lagfæringar á vegum og breikkun þeirra kalli á umhverfismat, mjög þröng túlkun á lagatexta og virðist ekki vera í samræmi við þá túlkun sem við höfum séð annars staðar. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég held að menn þurfi virkilega að skoða við heildarendurskoðun á mati á umhverfisáhrifum.