150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

bifreiðaskoðanir og þjónustuskylda.

651. mál
[19:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna um hvort bifreiðaverkstæði geti sinnt bifreiðaskoðunum þá er stutta svarið: Já. En þeir aðilar sem taka að sér skoðanir ökutækja verða að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenndra skoðunarstofa, þar með talið ákvæði um hlutleysi. Ég ætla að fjalla lauslega um þær kröfur á eftir en það getur verið erfitt og stundum ómögulegt fyrir venjulegt bifreiðaverkstæði að uppfylla þær. Verkstæði sem slíkt getur til að mynda ekki skoðað ökutæki samhliða starfsemi sinni. Tilgangurinn með þeim ströngu skilyrðum sem skoðunarstofur uppfylla er í stuttu máli að tryggja sem best öryggi bifreiða í umferð. Skoðunarstofur hafa leigt aðstöðu bifreiðaverkstæða víða þar sem þær hafa ekki sjálfar aðstöðu og á meðan er athafnasvæði skoðunarstofunnar lokað fyrir starfsemi verkstæðisins.

Um starfsemi skoðunarstofa gilda ákvæði reglugerðar um skoðun ökutækja, nr. 8/2009, og hefur Samgöngustofa það hlutverk að viðurkenna skoðunarstofur samkvæmt 23. gr. reglugerðarinnar og veita þeim starfsleyfi. Áður en Samgöngustofa viðurkennir skoðunarstofu skal stofan hafa hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð um starfsemi faggiltra, óháðra skoðunarstofa. Í reglum sem gilda fyrir skoðunarstofur er m.a. að finna kröfu um hlutleysi. Þannig má skoðunarstofa samkvæmt 22. gr. ekki bæði annast viðgerðir á ökutækjum og skoðun þeirra. Þá má skoðunarstofa ekki selja varahluti í bifreiðar samhliða skoðun þeirra. Í reglugerðinni eru gerðar kröfur um ýmsan kostnaðarsaman lágmarksbúnað til skoðana, t.d. tæki til hemlaprófana og mengunarmælinga. Í 24. gr. reglugerðarinnar eru gerðar menntunarkröfur til stjórnenda og annarra starfsmanna í skoðunarstofum. Jafnframt er gerð krafa um að þeir séu í föstu starfi hjá skoðunarstofu. Skoðunarstofu ber skylda til að taka þátt í samanburðarskoðunum þegar Samgöngustofa óskar eftir því og skal skoðunarstofan bera allan kostnað vegna þeirrar þátttöku. Sé þess óskað þarf skoðunarstofa að taka þátt í verkefnum sem unnin eru í samvinnu lögreglu, Vegagerðarinnar og Samgöngustofu.

Þá eru í reglum ýmis ákvæði sem ætlað er að tryggja samræmi í niðurstöðum skoðana milli skoðunarstofa. Þar má nefna að skoðunarstofa skal vera tengd tölvukerfi Samgöngustofu og koma samdægurs til stofnunarinnar upplýsingum um niðurstöðu skoðana, að innheimta og standa skil á umferðaröryggisgjaldi, vanrækslugjaldi og ganga úr skugga um að bifreiðagjald og lögboðin tryggingariðgjöld ökutækis séu að fullu greidd. Þannig að svarið er já, en það er fullt af kröfum sem þarf að uppfylla.

Önnur spurning var hvort ráðherra teldi að skilgreina þyrfti þjónustuskyldu slíkra fyrirtækja með skýrari hætti. Skoðunarstofur sinna nú þegar skoðunum úti á landi og þær hafa aðstöðu víða á landsbyggðinni og hafa auk þess aðgang að aðstöðu á bifreiðaverkstæðum á nokkrum stöðum þannig að það er möguleiki. Þá búa tvær skoðunarstofur yfir færanlegum skoðunarstofum.

Ef auka ætti lögbundna þjónustuskyldu skoðunarstofa umfram þá þjónustu sem haldið er uppi í dag fylgir því vissulega aukinn kostnaður fyrir neytendur. Auk þess þarf að gæta þess að mismuna ekki starfsemi skoðunarfyrirtækja sem hafa mismunandi áherslur um framboð og þjónustu. Nýjar skyldur þyrftu því að vera vel afmarkaðar og skýrar í framkvæmd til að draga úr kostnaðaráhrifum þeirra. Skynsamlegast gæti verið að gefa sér ekki eina lausn fyrir fram og skoða málið heildstætt.

Ég tel sem sagt að hægt sé og eðlilegast að ætlast til þess að markaðurinn ráði við og leysi þetta verkefni. Hins vegar er valkostur að setja fram einhvers konar þvinganir ef það reynist ekki vera raunin. Með tilliti til þess sem hv. þingmaður lýsti í sinni ræðu, að þjónustunni færi aftur og það væri tilhneiging til að loka sífellt fleiri skoðunarstofum með tilheyrandi lengri akstri fyrir viðkomandi, mætti auðvitað skoða einhverja slíka valkosti eða hugsa aðrar leiðir til þess að ná fram breyttri hegðun markaðsfyrirtækjanna.