150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

bifreiðaskoðanir og þjónustuskylda.

651. mál
[20:02]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðuna um bifreiðaskoðanir og þjónustuskyldu skoðunarstöðva fyrst og fremst til að leggja áherslu á að það er algerlega óviðunandi ef ekki verður hægt að fá skoðun á bíl á milli Húsavíkur og Vopnafjarðar. Það er einfaldlega óviðunandi fyrir alla þá starfsemi sem þar fer fram, hvort sem um er að ræða atvinnustarfsemi eða heimilisrekstur. Þarna geta verið ökutæki sem þurfa aldrei að fara úr þeim þéttbýliskjarna þar sem þau eru mest notuð, sem getur verið Þórshöfn, Kópasker eða Raufarhöfn. Þetta er mál sem tryggja verður lausn á. Kannski geta hreyfanlegu skoðanastöðvarnar sinnt þjónustunni, en það þarf þá að vera einhver trygging fyrir því.