150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

bifreiðaskoðanir og þjónustuskylda.

651. mál
[20:03]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur að vekja athygli á þessu alvarlega máli sem upp er komið á norðausturhorninu. Ég veit að hæstv. ráðherra er mjög áfram um að halda uppi fjölbreyttu atvinnulífi úti um landið og að alls öryggis sé gætt þegar kemur að umferðarmálum. Það er mikilvægur öryggisþáttur hjá okkur að vel sé fylgst með ökutækjunum okkar, en það er algerlega óviðunandi að stór hluti af landinu og norðausturhorninu hafi ekki aðgang að skoðun og eftirliti með farartækjum og að fólk þurfi að aka um langan veg. Ég vil skora á ráðherra að skoða þetta mál vel af því að við þurfum að finna lausn á því. Það er algerlega ótækt að þurfa að aka um marga fjallvegi til að fá skoðun á farartæki sem þurfa annars jafnvel aldrei að fara út úr byggðarlaginu þar sem þau eru.