150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

öryggismál og umferðarþjónusta í jarðgöngum.

656. mál
[20:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til svara í kvöld. Jarðgöng eru nú orðin líklega tíu talsins á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, og spanna tæplega 60 km af þjóðvegakerfi okkar. Þau eru frá ýmsum tíma. Elstu göngin teljast vera Arnarnesgöngin í Álftafirði, milli Súðavíkur og Ísafjarðar, sem mér eru langkærust. Það er alltaf fallegt að koma að göngunum og sjá ljósið hinum megin um leið. Þau eru 30 m löng og tekin í notkun árið 1948. Göngin voru ekki óumdeilt mannvirki frekar en ýmis önnur mannanna verk en þau kostuðu á þeim tíma 750.000 kr. Menn tókust svolítið á um hvort ekki ætti að laga vegina sem voru illa á sig komnir þá eins og víða enn á Vestfjörðum.

Ég vil nota þetta tækifæri og nefna að fyrir þinginu liggur tillaga um að undirbúa ný göng sem tryggi öruggar samgöngur milli staðanna því að leiðin um Súðavíkurhlíð er stórhættuleg og lokast oft vegna snjóa og grjóthruns. Þokast hefur í áttina í vegabótum á Vestfjörðum en margt er enn ógert þar. Það stendur þó til bóta. Landsmenn allir og stjórnvöld gera stöðugt meiri kröfur um þægindi í akstri, styttingu á leiðum og um leið öryggi á ferðum sínum.

Nýjustu göngin eru Vaðlaheiðargöng, tekin í notkun í janúar 2019, og í haust verða væntanlega Dýrafjarðargöng tekin í notkun. Og við viljum auðvitað fá fleiri göng undir vestfirsku Alpana. Á ferðum okkar um landið verðum við vegfarendur þess áskynja að aðstæður eru æðimisjafnar í jarðgöngunum, bæði merkingar, lýsingar og ýmis öryggisbúnaður, t.d. slökkvitæki og neyðarsímar, þótt allt virðist þetta vera til staðar, sérstaklega í nýju göngunum.

Það sem vekur furðu er að æðimisjafnt er hvort símasamband, netsamband, sé í göngum á Íslandi eða að útvarpssendingar náist. Það hlýtur að teljast hluti af öryggiskerfinu í umferðinni. Það þykir sjálfsagt mál að í fjölförnum göngum sé það í lagi og til reiðu sem þarna er. Ég nefni Hvalfjarðargöng. En það er ekki síður mikilvægt að þessi atriði séu til staðar í göngunum þar sem minni umferð er og kannski getur liðið langur tími þar til að aðstoð berst ef svo ber undir. Það er skortur á þessu í göngunum fyrir vestan, og austan að einhverju leyti. Í Bolungarvíkurgöngum næst sími en ekki útvarp. Þetta eru 5.200 m löng göng, og sama er að segja um lengstu samfelldu jarðgöngin á Íslandi undir Breiðadalsheiði og Botnsheiði, sem eru samtals tæpir 10.000 m.

Ég spyr hæstv. ráðherra fjögurra spurninga: Hvernig eru veigamestu þættir öryggismála í jarðgöngum hér á landi skilgreindir? Eru öryggismál, öryggiseftirlit og umferðarþjónusta í jarðgöngum samræmd? Hvernig eru aðstæður með tilliti til öryggismála í hverjum og einum jarðgöngum hér á landi? Og í fjórða lagi: Hyggst ráðherra vinna skipulega að úrbótum ef misræmi reynist vera á milli jarðganga hvað varðar mikilvæga öryggisþætti?