150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

öryggismál og umferðarþjónusta í jarðgöngum.

656. mál
[20:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Veigamestu þættir öryggismála eru þó nokkrir og skilgreindir. Í fyrsta lagi er hönnun veglínu og þversniðs, t.d. hvort þar séu krappar beygjur, hvort þau séu einbreið. Í öðru lagi, hvers konar umferð er um göngin. Sem dæmi má nefna hvort heimilt sé að flytja um þau hættuleg efni, sem við ræddum hér fyrr í dag, hvort þau séu gerð fyrir umferð gangandi og hjólandi fólks. Í þriðja lagi lýsing í göngum og loftræsting sem og merkingar. Í því sambandi mætti nefna hvort í þeim sé díóðulýsing sem leiðbeinir um flóttaleiðir beri hættu að. Í fjórða lagi mætti nefna fjarskipti í göngum. Sem dæmi hvort GSM-símar virki þar, hvort þar sé Tetra-samband, hvort þar séu hátalarar, hvort sendingar útvarps náist o.fl. Í fimmta lagi mætti nefna hvort til séu viðbragðsáætlanir, komi til þess að rýma þurfi göngin eða slökkva þar eld. Í sjötta lagi er vöktun ganga frá vaktstöð mjög mikilvæg. Með vaktstöð má fylgjast með aðstæðum í göngum, svo sem mengun og hvort búnaður þeirra sé í lagi að öðru leyti.

Varðandi það hvort þessi mál séu samræmd er búnaður í göngum á Íslandi samræmdur. Eftirlit með því hvort hann sé í lagi fer m.a. fram í vaktstöð Vegagerðarinnar í samræmdu vaktkerfi jarðganga. Almannaskarðsgöng eru ekki enn tengd vaktkerfi. Hvalfjarðargöng eru ekki inni í sama vaktkerfi og önnur göng. Með þeim er fylgst í öðru sambærilegu vaktkerfi. Vaktstöðvar fylgjast m.a. með mengun í göngum og geta stjórnað loftræstingu og lokað göngum ef þarf. Vaktstöðvar hafa einnig mikilvægt hlutverk við að upplýsa slökkvilið og lögreglu um ástand ganga í slysatilfellum.

Varðandi aðstæður með tilliti til öryggismála í hverjum og einum jarðgöngum vísa ég til upplýsinga sem við höfum fengið frá Vegagerðinni. Hvalfjarðargöng eru á samevrópska vegakerfinu og uppfylla öryggisreglur. Göng undir Breiðadals- og Botnsheiði eru orðin 24 ára gömul. Þau eru ein lengstu göng landsins, 9,1 km, og búnaður í þeim hefur verið endurbættur mikið. Ekki er aðkallandi að bæta hann frekar. Bolungarvíkurgöng voru opnuð 2010 og eru sögð í góðu lagi. Í Arnardalshamarsgöngum, elstu göngum landsins, er ekki talin þörf á neinum búnaði. Strákagöng voru opnuð 1967, þau voru endurbætt 1991, búnaður hefur verið endurbætur á síðustu árum. Áætlað er að endurbótum verði lokið í sumar. Héðinsfjarðargöng voru opnuð 2010 og eru í góðu lagi, er sagt í upplýsingum um þau. Múlagöng eru frá 1990, einbreið. Búnaður ganganna hefur verið endurbættur mikið, þau uppfylla nú öryggiskröfur. Umferð er orðin nokkuð mikil og umferðartafir nokkuð tíðar. Skoða þarf viðbrögð ef umferð heldur áfram að aukast. Vaðlaheiðargöng voru opnuð í desember 2018. Þau eru á samevrópska vegakerfinu og uppfylla kröfur þess. Neyðarsímar eru þó aðeins á 250 m bili en eiga strangt til tekið að vera á 150 m bili. Á ýmsum sviðum er búnaður ganganna hins vegar umfram kröfur. Norðfjarðargöng voru opnuð 2017 og eru ný og talin í góðu lagi. Fáskrúðsfjarðargöng voru opnuð 1995 og eru á samevrópska vegakerfinu. Þau hafa verið endurbætt til að uppfylla kröfur um öryggi. Það gera þau nema að einu leyti, það vantar rýmingarlýsingu nærri akbraut. Vilji er til að setja kantljós eins og eru í Norðfjarðargöngum. Almannaskarðsgöng, sem voru opnuð 1995, eru á samevrópska vegakerfinu. Þau hafa ekki verið endurbætt neitt sem heitir, en á næsta ári er á áætlun að fjölga símum og tengja göngin við vaktkerfi jarðganga. Rýmingarlýsingu vantar.

Síðan er spurt hvort ráðherra hyggist vinna skipulega að úrbótum ef þörf reynist, en almennt er samræming á mikilvægum öryggisþáttum í jarðgöngum á Íslandi góð. Þó er mikilvægt að hafa í huga að göngin eru mjög mismunandi að gerð. Nefna má þætti eins og breidd, lengd, aldur, augljóslega, og umferð. Kröfur til þeirra eru því eðlilega mismunandi. Kröfur til hönnunar jarðganga breytast með tímanum. Það á einnig við um kröfur til öryggis. Mjög erfitt getur reynst að verða við öllum nýjum og uppfærðum kröfum í mörgum eldri göngum sem hönnuð voru eftir stöðlum á byggingartíma. Ávallt er stefnt að því að öryggi í göngum á Íslandi sé eins gott og unnt er og að öryggisþættir í þeim fylgi bæði stöðlum og aðstæðum á hverjum stað. Ég vísa bara til upptalningarinnar á göngunum og hvað hefur verið unnið þar á síðustu misserum.