150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

öryggismál og umferðarþjónusta í jarðgöngum.

656. mál
[20:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa fínu umræðu um jarðgöng og öryggismál þar. Ég vil bara ítreka í mínum lokaorðum að eins og kemur fram í upptalningunni er það mat manna að ástandið sé nokkuð gott og stöðugt sé verið í endurbótum. Ég þekki ekki svar við spurningu hv. þingmanns, um hvaða fjármuni þyrfti til að allt væri tipp topp, enda kannski ósanngjörn krafa þegar við vitum að umrædd göng eru byggð á mjög mismunandi tímum, og kröfur eru mismunandi á hverjum tíma. Við setjum hins vegar einhverjar lágmarkskröfur sem verða alltaf að gilda og þær eru samræmdar og það er það sem menn hafa verið að vinna eftir, að uppfæra þessi göng til að ná því. En það verður auðvitað ekki hægt í sumum göngum að ná þeim hámarkskröfum sem við gerum eðlilega til nýjustu ganganna.

Ég nefndi í svari mínu að nokkur göng uppfylltu svokallaðar samevrópskar kröfur. Ég ætla að útskýra það aðeins nánar. Samevrópskar reglur um jarðgöng gilda um svokallaða TEN-T vegi, sem er aðallega Hringvegurinn hér á landi. Nýjustu göngin, Norðfjarðargöngin, uppfylla samevrópskar kröfur en til að mynda ekki Héðinsfjarðargöng. Norðfjarðargöngin eru ekki á TEN-T vegi og ekki heldur Héðinsfjarðargöng. Það er fyrst og fremst Hringvegurinn, það eru gerðar sérstakar kröfur um hann. Í Héðinsfjarðargöngum vantar til að mynda rýmingarlýsingu eins og ég nefndi, en þau eru líka orðin það gömul að þau þurfa ekki að uppfylla núverandi kröfur, þær eru ekki afturvirkar. Hins vegar eru núgildandi kröfur notaðar til hliðsjónar til að tryggja lágmarksöryggi úti um allt og ásættanlegt öryggi. Það er það sem Vegagerðin vinnur eftir og matið er að þannig sé staðan í dag. En alltaf er hægt að gera betur.