150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

630. mál
[20:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Nú tökum við til í þriðju lotu við að ræða hugtakið mannhelgi í dag. Eins og komið hefur fram í máli margra þingmanna og nokkurra ráðherra er hugtakið býsna víðfeðmt og skiptir töluverðu máli eftir því hvaða málaflokka maður ræðir hvernig það er skilgreint. Það er mikilvægt að gæta að og tryggja mannhelgi viðkvæmra hópa í samfélaginu. Í mínum huga er lykilatriði að við sem samfélag tryggjum að allir einstaklingar geti lifað mannsæmandi lífi og notið réttinda óháð bakgrunni og samfélagslegri stöðu. Einn hópur sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu er fatlað fólk, sem er oft og tíðum háð tiltekinni þjónustu samfélagsins og einstaklingum sem hana veita. Í allri þeirri umgengni er lykilatriði að mannhelgi fatlaðs fólks sé virt í einu og öllu og að það fái að njóta sömu réttinda og aðrir í því samhengi.

Við þurfum ekki að leita lengi að dæmum bæði úr nútíð og fortíð, frá fyrri tímum þar sem jafnvel þótti eðlilegt að fatlað fólk nyti ekki sömu réttinda og annað fólk með tilliti til heilbrigðisþjónustu, námstækifæra, búsetu og sjálfstæðis til ákvarðanatöku, svo eitthvað sé nefnt. Þar eru þeir hópar fatlaðs fólks í hvað viðkvæmastri stöðu sem ýmissa hluta vegna þurfa að reiða sig á aðra til að vera málsvarar þess. Því er umræðan mikilvæg og skiptir meðvitund um mannhelgi miklu máli í öllum samskiptum við fólk býr við fatlanir. Í raun má segja að fordómar gagnvart fötluðu fólki eða skilningsleysi á réttindum þess sé í raun brot á mannhelgi. Einnig má benda á að sambærilegir fordómar gagnvart eldra fólki, getu þess, væntingum og þrám og þörfum séu a.m.k. virðingarleysi fyrir mannhelgi, ef ekki brot á henni.

Á málasviði hæstv. ráðherra eru börn einnig viðföng og eiga sína mannhelgi. Henni eru gerð nokkur skil í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er hluti af íslenskum rétti. Nú á þessum síðustu tímum þegar við höfum verið að berjast við heimsfaraldur, hafa mannréttindi og réttindi fatlaðs fólks komist aftur í brennidepil. Þannig hefur t.d. komið upp sú staða á nokkrum stöðum að þjónusta hefur skerst og fatlaðir einstaklingar hafa ekki getað gengið að henni vísri. Það er vangavelta sem við eigum að taka á þessum tímum: Með því að leyfa okkur að skerða þjónustu þegar svona kemur upp, erum við þá að bregðast þessum einstaklingum hvað varðar réttindi þeirra og mannhelgi? Ég vísa til spurninganna í þingskjalinu, virðulegi forseti.