150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

630. mál
[20:44]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og fyrirspurnir á svipuðum slóðum til annarra ráðherra hér fyrr í dag og í kvöld. Spurningarnar sem beint var til mín voru tvær. Sú fyrri var hvort ráðherra teldi að skilgreiningin á hugtakinu mannhelgi væri fullnægjandi í lögum á málefnasviði ráðuneytisins. Eftir því sem næst verður komist er á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins einungis minnst á hugtakið mannhelgi í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Markmið þeirra laga er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Skal þjónustan miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.

Í IV. kafla laganna er fjallað um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Segir þar m.a. að tryggja skuli að fötluð börn fái nauðsynlega þjónustu svo þau geti notið mannréttinda og mannhelgi til jafns við önnur börn, lifað sjálfstæðu lífi og tekið þátt í samfélaginu án aðgreiningar.

Hugtakið mannhelgi er hins vegar ekki skilgreint í orðskýringum umræddra laga en vísað er til þess í greinargerð með frumvarpi því sem að lögum varð, að ákvæðið sem hugtakið birtist í sé til áréttingar á þeim rétti fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra til nauðsynlegrar þjónustu, sem sé grundvöllur þess að þau geti notið mannréttinda og möguleika sinna á við önnur börn. Þá er vísað til þess að ákvæðið byggist á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks varðandi réttindi fatlaðra barna, þá sérstaklega 7. gr., og lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þar er vísað til mannréttinda og mannfrelsis.

Um mannhelgi er einnig fjallað í 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. réttinn til frelsis og mannhelgi, á ensku kallað „right to liberty and security“. Réttindi þau sem fram koma í mannréttindasáttmála Evrópu eiga að vera tryggð hverjum þeim sem dvelst innan yfirráðasvæðis aðildarríkja. Sú staðreynd að sérstaklega sé minnst á mannhelgi í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er því til áréttingar á þeim rétti sem almennt á að vera öllum tryggður. Mannhelgi er ákveðinn kjarni mannréttinda og verður að telja að hugtakið hafi verið vel skilgreint, t.d. í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Því má í rauninni segja að skilgreiningin á hugtakinu liggi í mínum huga nokkurn veginn fyrir.

Síðan er spurning hvort ráðherra telji að hugtakið mannhelgi mætti koma skýrar fram í lögum á málefnasviði ráðuneytisins eða með öðrum hætti. Eins og áður segir kemur skýring á hugtakinu ekki fram í lögum á málefnasviði ráðuneytisins en hugtakið hefur verið skýrt á vettvangi þeirra er fjalla um og skýra mannréttindasáttmála Evrópu. Vissulega væri möguleiki á því að skýra hugtakið betur innan laga á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins.

Hv. þingmanni er því þökkuð þessi fyrirspurn. Mun hún verða til þess að við förum yfir þessi mál og setjum af stað vinnu við að skoða hvort ástæða sé til að skýra hugtakið betur innan laga á málefnasviði ráðuneytisins, bæði þeim í lögum sem hugtakið er notað og skýringin kemur ekki fram, og eins í öðrum lögum á málefnasviði ráðuneytisins.