150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

630. mál
[20:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil áfram benda á í þessari umræðu að fólk fari varlega og vandi sig sérstaklega mikið þegar við skilgreinum þetta mikilvæga hugtak af því að það á sína sögu. Hugtakið kemur inn sem undirstaða fyrir mannréttindi, fyrir grundvallarréttindi, fyrir borgararéttindi, stjórnmálaréttindi, þ.e. það sem þetta snýst allt saman um. Samfélagið sem við erum að búa til grundvallast á manninum, það er hann sem er með réttindi. Þetta kemur ekki upp úr engu. Þetta kemur upp úr því að við fórum í gegnum heimsstyrjöld í Þýskalandi með það sem fyrsta grunngildið, sem öll önnur grunngildi byggjast á, að maðurinn er í forgangi. Dómafordæmi um það — það er stjórnlagadómstóll þar — er að þegar sett voru lög í Þýskalandi sem heimiluðu að skjóta niður flugvélar sem hryðjuverkamenn tækju yfir sagði stjórlagadómstóllinn í Þýskalandi: Þessi lög eru brot á stjórnarskránni. Þau eru brot á mannhelgi. Það verður alltaf að setja manneskjuna í forgang.

Þannig að við það að skilgreina þetta hugtak horfum til arfleifðarinnar. (Forseti hringir.) Við horfum til þess hvaðan það kemur. Við horfum til þess að í lögum um mannréttindasáttmála Evrópu eru skilgreiningar á þessu og í öðrum lögum. (Forseti hringir.) Förum mjög varlega og vöndum okkur við þetta. (Forseti hringir.) Ég vil bara ítreka það enn frekar.