150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

630. mál
[20:53]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka þingmanninum aftur fyrir að taka þetta mál upp. Eins og ég sagði áðan er þetta orð að finna í einum lögum sem heyra undir ráðuneytið. Í þeim lögum er hugtakið ekki útskýrt í skýringum sem þeim fylgja. Hins vegar gefa menn sér í greinargerð og öðru hvað hugtakið þýðir og hvaðan það hafi upphaflega verið tekið og komið inn í lögin. En ég held að það sé góð brýning hjá þingmanninum að taka þetta hér upp, og ekki bara við einn ráðherra í dag heldur við fleiri, vegna þess að það hreyfir við þeirri umræðu að við hefjum formlega vinnu við skilgreiningu á hugtakinu og horfum til þess hvort ástæða sé til þess að setja það í fleiri lög eða taka það meira inn í vinnu okkar, skulum við segja, og á fleiri málefnasviðum. Ég þakka þingmanninum fyrir þá umræðu sem verið hefur um þetta mál og hlakka til samstarfs við hann og fleiri og til næstu skrefa hvað þetta snertir.