150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

endurskoðun reglugerðar nr. 189/1990.

601. mál
[20:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hefur ákveðið að árið 2020 eigi að vera ár plöntuheilbrigðis. Þetta er sannarlega ekki tilviljun. Með þessari yfirlýsingu vill stofnunin vekja athygli heimsbyggðarinnar á því hversu mikilvægur gróður jarðar er fyrir tilveru okkar á jörðinni. Það er brýnt enda hvílir öll ræktun, fóðrun og matvælaframleiðsla á plöntuheilbrigði.

Ísland gerðist aðili að alþjóðasamningum um plöntuvernd árið 2005 en með honum skuldbinda aðildarríkin sig líka til þess að gerast aðilar að svæðisbundnum plöntuverndunarsamtökum. Það má segja að það veki furðu að Ísland hafi ekki enn sótt um aðild að EPPO, sem eru samtök um plöntuvernd í Evrópu og á Miðjarðarhafssvæðinu. Þar liggja fyrir ýmsir gátlistar, válistar og skilgreind viðbrögð við vágestum í náttúru og ræktun. Hérlendis vantar þessa vinnu að stærstum hluta. Matvælastofnun hefur bent á að það komi niður á eftirliti og viðbrögðum við þeim vágestum sem borist hafa til landsins og geta borist hingað í framtíðinni. Dæmi eru um að setja hafi þurft bráðabirgðareglugerð í skyndi svo að Matvælastofnun geti brugðist við þegar upp koma veirusýkingar í ræktun hérlendis. Það gerðist t.d. í kjölfar þess að tveir plöntusjúkdómar greindust í tómatarækt á Suðurlandi árið 2017. Þá voru smitvarnir auknar og settar takmarkanir á samgang milli ræktunarstaða með reglugerð. Hér á ég við reglugerð um aðgerðir til að varna útbreiðslu plöntusjúkdóma. Þá vakti Matvælastofnun athygli á því að innfluttir tómatar geta borið með sér smit. Þeir segja sem þekkja til að það hafi verið vandasamt verkefni að útrýma veirusýkingu í gróðurhúsi og skiptir aðgangur að sérþekkingu sköpum ef vel á að takast til.

Sú sem hér stendur telur afar brýnt að auka samstarf, fagmennsku og öryggi á þessu sviði og fagna ég að Samband garðyrkjubænda sé reiðubúið að koma að þeirri vinnu. Núverandi reglugerð um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum, nr. 189/1990, er eins og númerið segir 30 ára gömul um þessar mundir. Reglugerðin hefur vissulega tekið breytingum en um langt skeið hefur legið fyrir að fara þyrfti fram heildarendurskoðun á henni. Á það hefur ítrekað verið bent á starfstíma síðustu fjögurra ráðherra. Núverandi ráðherra skipaði starfshóp til verksins en ekki er vitað til þess að hann hafi komið saman eða að áform séu um hvenær vinnu hans muni ljúka. Þetta hefur kannski breyst.

Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Í fyrsta lagi: Með hvaða hætti munu Íslendingar taka þátt í vitundarvakningu Sameinuðu þjóðanna á ári plöntuheilbrigðis?

Í öðru lagi: Hvað líður endurskoðun á reglugerð nr. 189/1990, um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum?

Í þriðja lagi: Mun starfshópurinn sem ráðherra skipaði gera tillögu að breytingum á reglugerðinni og hyggst ráðherra ljúka heildarendurskoðun í tilefni af því að í ár er alþjóðlegt ár plöntuheilbrigðis?

Í fjórða lagi: Hvernig hyggst ráðherra að öðru leyti taka þátt í vitundarvakningu FAO um plöntuheilbrigði?

Og að síðustu: Eru áform um að Ísland sæki um aðild í EPPO?