150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

endurskoðun reglugerðar nr. 189/1990.

601. mál
[20:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Til mín var beint fjórum spurningum af hv. þingmanni. Í fyrsta lagi var spurt: Hvað líður endurskoðun á reglugerðinni sem vitnað var til? Svarið við því er það að endurskoðun reglugerðarinnar stendur yfir innan ráðuneytisins og að því er unnið í náinni samvinnu við Matvælastofnun. Sömuleiðis er við endurskoðunina haft samráð við fagaðila og haghafa á málefnasviðinu og við ráðgerum að endurskoðun reglugerðarinnar ljúki á yfirstandandi ári.

Einnig er spurt hvort ráðherra hyggist skipa formlegan starfshóp sem vinna eigi tillögur að breytingum á reglugerðinni. Ekki er gert ráð fyrir því að formlegur starfshópur verði skipaður vegna breytinganna, en eins og ég gat um áðan verður unnið í nánu samráði við Matvælastofnun og helstu fagaðila á þessu sviði.

Í þriðja lagi var spurt hvort við ráðgerðum að ljúka heildarendurskoðuninni á þessu ári í tilefni þessa árs sem FAO hefur helgað alþjóðlegu ári plöntuheilbrigðis. Ég ítreka það sem ég sagði sem svar við fyrstu spurningunni að við ráðgerum að þessari endurskoðun ljúki á þessu ári.

Að lokum var spurt: Hvernig hyggst ráðherra að öðru leyti taka þátt í vitundarvakningu FAO um plöntuheilbrigði? Því er til að svara að ég tel mjög mikilvægt að að vinna að frekari eflingu varna gegn plöntusjúkdómum. Er það m.a. ástæða þess að við erum að vinna að endurskoðun framangreindrar reglugerðar. Það eru fleiri verkefni í gangi sem tengjast plöntuheilbrigði, svo sem vernd gróðurauðlinda og bætt eftirliti við innflutning plantna. Í því sambandi vil ég nefna að í tengslum við aðgerðaáætlun um að efla matvælaöryggi voru gerðar breytingar á tollskrá sem tóku gildi 1. janúar á þessu ári. Þær breytingar sneru að stórum hluta að fjölgun tollskrárnúmera garðyrkjuafurða, einkum á plöntum og grænmeti. Með þessu verklagi var skráning og tollflokkun gerð til muna skýrari sem einfaldar og stuðlar að bættu eftirliti í þessum efnum.

Sömuleiðis vil ég nefna að í mars árið 2017 gerðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands, Landgræðslan og Landssamtök sauðfjárbænda með sér samkomulag til tíu ára um mat og vöktun á gróður- og jarðvegsauðlindum landsins. Það verkefni er kallað GróLind og er fjármagnað í gegnum sauðfjársamninga búvörusamninga. Markmið verkefnisins er að setja upp kerfisbundna vöktun á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda og safna þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að tryggja sjálfbæra nýtingu þessara sömu auðlinda. Markmið þessa verkefnis er að leggja reglulegt heildarmat á ástand gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda Íslands. Verkefnið mun veita mikilvægar upplýsingar sem munu nýtast við stefnumótun á sviði landbúnaðar og ekki síður á sviði landnýtingar.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á ásamt umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samstarfi við Bændasamtök Íslands, Landgræðsluna og Skógræktina og á þeim vettvangi hefur verið unnið að verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður. Markmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og einnig vegna landnýtingar og auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Verkefni þetta felur í sér fræðslu og heildstæða ráðgjöf til bænda um samspil landbúnaðar og loftslagsmála og við gerð aðgerðaáætlana fyrir einstök bú til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda Ég tel að með þessu verkefni séu stigin mjög jákvæð skref í átt að loftslagsvænni og sjálfbærari landbúnaði.