150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

fagháskólanám fyrir sjúkraliða.

619. mál
[21:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Það hefur sjaldan verið eins ljóst og núna hversu mikilvægir sjúkraliðar eru okkur sem samfélagi. Þetta er stétt í framlínunni. Þetta er stétt sem bókstaflega hættir lífi sínu og í raun sinna nánustu bara við að sinna vinnunni sinni. Þetta er stétt sem er með hjartað í starfinu. Þetta er stétt sem þarf á okkur að halda, okkur sem erum hér í þessum sal. Sjúkraliðar hafa núna beint þeirri sjálfsögðu kröfu til okkar að opnuð verði 60 eininga diplómagráða á háskólastigi, nám sem verði á fagháskólastigi.

Þetta er svo eðlileg krafa að ég ætla bara að spyrja hæstv. ráðherra beinnar spurningar, hvort þetta verði einfaldlega ekki gert strax í haust. Ég ætla að þrýsta á ráðherrann að gera það án nokkurs hiks. Þetta væri í samræmi við kjarasamning stéttarinnar sem rétt náðist núna í vor. Þetta væri í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda um nemendafjölgun á háskólastigi vegna Covid-faraldursins. Þetta væri í samræmi við vöntun á sjúkraliðum með sérnám í heilbrigðiskerfinu og væri í samræmi við vilja sjúkraliða í landinu.

Herra forseti. Formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Sandra B. Franks, benti nýverið í grein á að hér væri á ferðinni dauðafæri fyrir ríkisstjórnina. Ég er talsmaður þess að við nýtum okkur öll þau færi sem við höfum á að efla og bæta stöðu sjúkraliða í landinu.

Sendum í dag, akkúrat núna, sterk skilaboð til sjúkraliða um að við stöndum með þeim — þau standa með okkur — og gerum það sem þau eru að biðja okkur um að gera hér í dag. Það er hagur okkar allra.