150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

fagháskólanám fyrir sjúkraliða.

619. mál
[21:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fram kom í máli hv. þingmanns að fjármunir þurfi að fylgja með. Já, ég get staðfest það að ríkisstjórnin ætlar sér að auka fjármuni inn í menntakerfið, m.a. vegna þess ástands sem uppi er í kjölfar veirunnar. Það er ljóst að aukin aðsókn er í starfsnám, í iðnnám og inn á háskólastigið og ég held að það sé kjörið tækifæri fyrir fólkið í landinu, sem hefur áhuga á því að bæta við sig færni eða hæfni, að nýta okkar öfluga menntakerfi til þess. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að auka færni og þekkingu sjúkraliða og þeir hafa haft frumkvæði að því að hefja fagháskólanámið og lagt mikið á sig til þess og það hefur átt sér stað góð og öflug stefnumótun hjá heilbrigðisráðherra sem er að efla sérþekkingu hjá sínum fagstéttum. Eins er þetta í takt við þá menntastefnu sem ég mun kynna í þingsályktunartillögu í haust, ég ákvað að fresta henni vegna þess að ég vildi kynna hana og hafa betra rými fyrir hana á haustdögum. En ég get glatt hv. þingmann með því að segja að við erum með sömu áherslur hvað þetta varðar.