150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[15:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Vissulega ber okkur skylda til að afgreiða nýtt og samþykkja auðlindaákvæði í stjórnarskrá en það er ekki sama hvernig það lítur út. Þar þarf að passa upp á hluti eins og að það sé gjaldtaka af eðlilegum toga og tímabinding heimilda og annað slíkt. Slíkt er ekki uppi á borðinu í augnablikinu.

En förum að öðru. Í umræddri grein talar hæstv. forsætisráðherra líka um nauðsyn þess að vinstri menn sameinist gegn hægri öflum, sér í lagi útlendingaandúð. Nú geri ég mér grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn telst kannski ekki til öfgahægri afla þótt hann hafi birt sérkennilegar skoðanir sínar í t.d. málum eins og þungunarrofi og öðru og í útlendingamálum nú. Ég velti því fyrir mér í því samhengi hvernig forsætisráðherra getur réttlætt það að hafa eftirlátið hægri flokki sem rekur harða útlendingastefnu stjórn útlendingamála hér á landi og hvort hæstv. ráðherra, formaður hreyfingar Vinstri grænna, sé að veita flokki um ómannlega útlendingastefnu ákveðið lögmæti í núverandi ríkisstjórn.