150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vík fyrst að því að hv. þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, segir að mjög mikilvægt sé að við sameinumst um auðlindaákvæði í stjórnarskrá (LE: Það er ekki sama hvernig það er.) og að ekki sé sama hvernig það er. En erum við ekki öll sammála um að auðlindirnar beri ekki að afhenda með varanlegum hætti? Er það ekki undirstöðuatriði? Og erum við ekki sammála um að í stjórnarskrá eigi að birtast grunnlínurnar sem leggja löggjafanum línurnar? Og erum við ekki sammála um hvað það merkir að afhenda ekki auðlindir með varanlegum hætti? Því að það er mjög vel útskýrt. Það er útskýrt að það eru þá annaðhvort tímabundin afnot eða uppsegjanleg með tilteknum fyrirvara sem er, ef ég man rétt, það sem stóð í auðlindaákvæði auðlindanefndarinnar 2000 og er útskýrt með þessum hætti í því frumvarpi sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda.

Síðan vil ég segja það að ekki hafa fleiri fengið alþjóðlega vernd á Íslandi en árið 2019, ef við höldum tölum til haga. Íslensk stjórnvöld fóru aðra leið, og ég var ekki hluti af ríkisstjórn þá þannig að það er ekki svo að það sé endilega mér að þakka, (Forseti hringir.) en stjórnvöld til að mynda annars staðar á Norðurlöndum sem settu mun harðari útlendingareglur (Forseti hringir.) á sínum tíma þegar flóttamannabylgjan gekk yfir Evrópu. Ég veit því ekki alveg í hvað hv. þingmaður er að vísa (Forseti hringir.) þegar um er að ræða mál sem, sem betur fer, tiltölulega mikil samstaða hefur verið um hér á þingi.