150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

opnun landsins gagnvart ferðamönnum.

[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vænti mikils af fundi okkar formanna á morgun, meira en upplýst var á síðasta formannafundi. Ég legg mikla áherslu á að almenningi, þjóðinni allri, verði gerð mjög fljótlega grein fyrir því hvernig við stígum þetta skref, hvernig við förum í það, hvað við gerum til viðbótar ef, sumir segja þegar, bakslag verður. Hvaða skilaboð erum við að færa fólkinu okkar sem er t.d. með undirliggjandi sjúkdóma? Ef bakslag verður, hvaða skilaboð erum við að færa ferðaþjónustunni sem eygir von um að opna örlítið? Til hvaða ráðstafana ætlar ríkisstjórnin að grípa og hver eru skilaboðin? Við þurfum að vera öll á sömu blaðsíðunni, að það sé ekki bara ríkisstjórnin heldur við öll saman, af því að við viljum öll standa saman að þessu. En þá þurfum við upplýsingar og þær eru eins og er ekki nægilega skýrar.

Ég skil margt mjög vel í þessu en ég vil hvetja ráðherra og ríkisstjórn til að upplýsa okkur á morgun, upplýsa alla þjóðina, en ekki bara formenn, sem allra fyrst þannig að allir geri sér grein fyrir næstu skrefum og næstu leikjum í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í.