150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

úttekt á kostnaði vegna skerðinga aldraðra og öryrkja.

[15:21]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þann 20. júní 2019, fyrir tæpu ári, hlupum við hér á milli herbergja til þess að komast að samkomulagi, eins og við kölluðum það. Það gerist nú gjarnan fyrir jólafrí og sumarfrí að þá fær stjórnarandstaðan einhverja samningsstöðu gagnvart ríkisstjórninni og fær að taka eitthvert mál úr nefnd til að koma með það hér inn í 2. umr. og jafnvel atkvæðagreiðslu.

Í þessu tilviki er um að ræða fyrsta þingmannamál Flokks fólksins, sem ég mælti fyrir hér strax fyrir jólin 2017 og endaði í þingsályktun, með samþykki allra flokka, 20. júní í fyrra. Þingsályktunin var um úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyrisþega almannatrygginga vegna launatekna.

Hæstv. ráðherra samþykkti að gerð yrði úttekt af óháðum aðilum í samstarfi við félagsmálaráðuneytið við mat á fjárhagslegum áhrifum, hvort það kostaði ríkissjóð einhverja fjármuni að afnema þessar skerðingar á launatekjur aldraðra, en við höfðum tvívegis lagt fram útreikninga þar að lútandi sem við höfum keypt af færum fagaðilum úti í bæ, sem sögðu að þvert á móti á hagnaður myndi verða af því að veita eldri borgurum möguleika á því að halda áfram að vinna án skerðinga.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem hét því í umræddri þingsályktun, að fyrir 1. mars 2020 myndi hann koma hér fram með það algjörlega á hreinu hvort einhver kostnaður hlytist af því eða ekki. Ef ekki ætlaði hann að koma með frumvarp sem myndi leiða til þess að þessar skerðingar af launatekjum aldraðra yrðu afnumdar. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað er að frétta?