150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

úttekt á kostnaði vegna skerðinga aldraðra og öryrkja.

[15:23]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt að við þinglok fórum við hér á milli herbergja, eins og gjarnan gerist við lok þings, og úr varð þingsályktunartillaga sem var samþykkt lítils háttar breytt, sem Flokkur fólksins hafði lagt til, sem fól í sér að félags- og barnamálaráðherra var falið að vinna þessa umræddu úttekt. Samið var við Capacent um að vinna úttektina, gerður samningur um það. Það dróst lítils háttar en þeir hafa nú skilað úttektinni. Niðurstaða hennar var sú að umtalsverður kostnaður væri af þessu fyrir ríkissjóð. Ég á von á því að úttektin geti farið á vef ráðuneytisins á allra næstu dögum ef hún er ekki þegar komin þangað. Það var líka kveðið á um það í þingsályktunartillögunni, sem samþykkt var af öllum þingmönnum, að væri kostnaðarauki samkvæmt þessari óháðu úttekt — ég ítreka að hún var unnin af Capacent — skyldi úttektinni vísað til sérstaks starfshóps sem er nú að ræða stöðu og kjör eldri borgara og hefur úttektin verið send þangað. Ég biðst forláts á því ef hún hefur ekki verið birt opinberlega og mun ganga úr skugga um það eftir þessa fyrirspurn að hún fari beint á vef ráðuneytisins, ef hún er ekki þegar komin þangað, og biðja um að hún verði líka send hv. þingmanni í tölvupósti.