150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

upplýsingaskylda stórra fyrirtækja.

[15:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Á dögunum dró til þeirra tíðinda að kynslóðaskipti urðu á eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja. Fram hefur komið í fjölmiðlum að stærstu eigendur Samherja, Þorsteinn Már Baldursson og Kristján Vilhelmsson, hafa ákveðið að börnin þeirra munu eignast hlutabréf þeirra í Samherja hf. Í úttekt Stundarinnar á þessum viðskiptum frá 23. maí sl. kemur fram, með leyfi forseta:

„Á bak við þessi hlutabréf eru eignir eins og fasteignir, skip og síðast en ekki síst aflaheimildir, kvóti Samherja og hlutdeild í hlutabréfum annarra útgerðarfélaga, eins og Síldarvinnslunnar, og þar af leiðandi kvóta annarra útgerða.“

Þessi gjörningur hefur skiljanlega vakið undrun og eftirtekt í samfélaginu, sér í lagi vegna þess hversu verðmæt þessi eignatilfærsla milli kynslóða er talin vera. Margt er enn á huldu um eðli þessara viðskipta og greiðslna á þessum arfi, fyrirframgreidda arfi, eins og talað hefur verið um. Sömuleiðis vekur þessi eignatilfærsla upp tortryggni vegna þess að rannsókn á meintum mútugreiðslum Samherja í Namibíu stendur enn yfir.

Virðulegur forseti. Þann 19. nóvember sl. kynnti ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra aðgerðir til að auka traust á íslensku atvinnulífi. Tilkynningin kom í kjölfar umfjöllunar Kveiks um áðurnefndar meintar mútugreiðslur Samherjamanna til ráðamanna í Namibíu og mögulega víðar. Þar kom m.a. fram að til stæði að auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja og enn fremur að skoða ætti möguleika á að gera enn ríkari kröfur um gagnsæi til stærri sjávarútvegsfyrirtækja.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvar sú vinna stendur, hvort henni finnist ekki tilefni til að flýta henni í ljósi þessarar risavöxnu eignatilfærslu og ógagnsæisins sem ríkir um tilhögun hennar. Þá er ég ekki að spyrja um frumvarp hæstv. ferðamálaráðherra sem liggur nú þegar fyrir nefnd heldur er ég að spyrja (Forseti hringir.) um það frumvarp sem boðað var í þessari aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar að kæmi til viðbótar því frumvarpi.