150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

nýting vindorku.

[15:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil við þetta tækifæri fá að beina fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra varðandi nýtingu vindorku. Nú hefur Orkustofnun lagt til 43 virkjunarkosti til skoðunar í tengslum við vinnu verkefnisstjórnar um rammaáætlun. 34 þeirra fjalla um vindorku, þ.e. vindmyllugarða sem dreifast vítt og breitt um landið. Í fréttum Stöðvar 2 í gær var viðtal við lögmann eigenda verkefnis utan við Búðardal. Ekki var hægt að skilja afstöðu lögmannsins öðruvísi en svo að hann teldi málefni vindorku í fullkomnum ólestri, eða eins og það var orðað í fréttinni, með leyfi forseta: „Þetta er tóm þvæla eins og þetta er gert í dag.“ Þarna kom fram það sjónarmið að umhverfisráðuneytið teldi nýtingu vindorku falla undir lög um rammaáætlun og var lýst bréfaskriftum á milli aðila þar að lútandi. Lögmaðurinn telur umhverfisráðuneytið vaða í villu hvað þetta varðar og telur réttaróvissuna, sem m.a. hverfist um ákvæði stjórnarskrár um eignarrétt og atvinnufrelsi, um skipulagsvald sveitarfélaga og jafnræði, vera þeirrar gerðar að bótaskylda geti skapast á hendur ríkisins vegna þessa.

Ég vil við þetta tækifæri spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga, þó að svarið við fyrstu spurningunni liggi svo sem dálítið í orðanna hljóðan hvað það varðar að umhverfisráðuneytið hafi lýst þeirri afstöðu sinni að málefni vindorku falli undir rammaáætlun. Í fyrsta lagi: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess hvort nýting vindorku eigi heima undir lögum um rammaáætlun? Í öðru lagi: Telur ráðherra að lög um umhverfismat og skipulagsvald sveitarfélaga nái nægilega utan um þessi verkefni? Og í þriðja lagi: Ef ráðherra telur regluverkinu ábótavant, má eiga von á útspili ráðherra hvað breytingar varðar og í hverju munu þær breytingar helst felast?