150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

nýting vindorku.

[15:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun, þ.e. allt sem er yfir 10 MW. Fyrsta skiptið sem orkunýtingarkostir sem þessir voru teknir fyrir í rammaáætlun var þegar verkefnisstjórn 3. áfanga fjallaði um tvo kosti, annars vegar vindorkuver við Blöndu og hins vegar á hafinu fyrir ofan Búrfell, þannig að það er alveg klárt í okkar huga að þetta heyrir þarna undir.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort skipulagslög, mat á umhverfisáhrifum, og gott ef hann nefndi ekki einhver ein lög í viðbót, séu nægjanleg til þess að takast á við þetta þá höfum við komið okkur saman um að stórir orkukostir, sem eru til umfjöllunar hverju sinni í samfélaginu, eigi að fara fyrir rammaáætlun og ég tel að það sé mikilvægt að við höldum áfram á þeirri leið. Það þýðir hins vegar ekki að það geti verið að mismunandi leiðir henti fyrir mismunandi orkuvinnslukosti. Það getur hentað betur að fara eina leið þegar kemur að vindi en aðra þegar kemur að vatni, þ.e. þegar verið er að meta með hvaða hætti eigi að flokka þetta í svæði sem ber að vernda og svæði sem ber að nýta. Í því augnamiði erum við að skoða leiðir í ráðuneytinu, og höfum verið að því í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, hvort við ættum að horfa til frekari útfærslu á því þegar kemur að vindorkunni. Ég get komið nánar inn á þetta í síðara svari ef hv. þingmaður hefur áhuga á að heyra meira um það.