150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

nýting vindorku.

[15:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þó að stuttur tími sé í seinni umferð væri áhugavert að heyra frekar um þessar vangaveltur ráðherrans er snúa að nýtingu vindorku. En bara til að ég átti mig almennilega á því þá er í rauninni afstaða ráðherra sú að verkefni yfir 10 MW fari undir rammaáætlunina en verkefni undir 10 MW séu þar utan.

Síðan væri, ef tími vinnst til, áhugavert að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til vindmyllugarða og þess að nýta vindorku með þeim hætti sem þar er stundað á breiðum grunni. Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þessara svokölluðu vindmyllugarða? Hugnast ráðherranum þetta vel sem framtíðarorkunýting eða hefur hann efasemdir um að þarna sé fetuð skynsamleg leið?