150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

[15:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum svarið og hlakka til júnímánaðar. Varðandi rýnina á áætlanir er mjög jákvætt að fá utanaðkomandi sérfræðinga til að greina áætlunina en mig langar að spyrja ráðherrann hvort það hafi ekki komið til álita að kanna áhuga fleiri aðila til að sinna því verkefni heldur en þeirra erlendu ráðgjafa sem voru fengnir til að sinna því fyrir upphæð sem er rétt undir útboðsmörkum. Ég reikna með að ráðherrann þekki betur en flestir hversu mikið einvalalið er hér á landi af fólki, útskrifuðu úr umhverfis- og auðlindafræði t.d., sem gæti unnið þetta verk.

Síðan varðandi það að allar aðgerðir viðspyrnunnar verði í þágu loftslagsmála samhliða öðru. Fjármálaráðherra talar um að nýta ástandið til að búa í haginn fyrir framtíðina og byggja upp Ísland í uppfærslu 2.0. Er ekki öruggt að umhverfis- og auðlindaráðherra sé með í þeirri stefnumörkun með ráðherranum? Það er annars til lítils að byggja upp Ísland 2.0 ef það er ekki grænt.