150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[15:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Tímarnir geta reynst okkur Íslendingum hættulegir sem öðrum þjóðum. Við höfum lifað í friði þrátt fyrir styrjaldir og blóðfórnir flestra ríkja. Nútíminn getur hins vegar verið blindur á það sem honum er næst. Í því felst hætta. Þetta sjáum við vel í veirufaraldrinum sem barst hingað til lands hratt og örugglega frá meginlandinu án þess að við gætum rönd við reist. Við þekkjum öll afleiðingarnar, heilsufarslegar og efnahagslegar. Í samanburði við aðrar þjóðir getum við vel við unað en við vitum ekki hvort faraldurinn gerir aðra atlögu. Í því felst óvissa sem við leggjum okkur fram um að mæta ef hún raungerist með hæfu starfsfólki, aðstöðu, tækjabúnaði, hlífðarfatnaði o.s.frv.

En það er óvissa á fleiri sviðum. Varnarmálin eru orðin ófyrirsjáanlegri en nokkru sinni frá lokum kalda stríðsins. Áskoranir í varnarmálum eru meiri en fyrr og í öllum heimshornum. Það er skylda okkar að mæta þessari óvissu. Við verðum að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, eins og segir í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem var mikilvægt skref sem Alþingi tók fyrir fjórum árum í þá átt að marka heildstæða stefnu um þjóðaröryggismál, þar sem grunnþættir eru aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þetta er ein af grunnforsendum sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar.

Ísland er herlaust smáríki og háð því að alþjóðasamfélagið sé friðsamlegt. Ég hef áður sagt það hér að Ísland á að beita sér í alþjóðlegum friðarmálum. Þar eigum við ónýtt tækifæri en við verðum jafnframt að vera raunsæ og skynsöm þegar kemur að okkur sjálfum. Sagan kennir okkur að allt er í heiminum hverfult. Heræfing Rússa við landamæri í Úkraínu endaði með stríði og innlimun Krímskaga þrátt fyrir að þeir sem best til þekkja hafi talið innrás ólíklega. Rússar breyttu þar með landamærum að eigin geðþótta. Málið jók á spennu milli austurs og vesturs og hefur valdið baltnesku þjóðunum miklum áhyggjum. Málið hafði einnig efnahagsleg áhrif hér á landi eins og við þekkjum þegar við stóðum með bandalagsþjóðum okkar.

Heræfingar Rússa eru almennt mun fleiri en NATO-ríkjanna, Norður-Atlantshafið er þar engin undantekning. Þar eykst hernaðaruppbyggingin þrátt fyrir vilja norðurskautsríkja um að norðurslóðir verði ekki vettvangur nýs vígbúnaðarkapphlaups og aukinnar hernaðaruppbyggingar. Norðurslóðastefna Rússa birtist í meiri hernaðaruppbyggingu, fjölgun kafbáta og í endurnýjun á herstöðvum. Staðsetning Íslands hefur náð fyrra mikilvægi hvað öryggismál varðar. Þetta hefur gerst hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Áætlanir Rússa varða okkur miklu. Landhelgisgæslan sér um vöktun umhverfis landið og rekur íslenska loftvarnakerfið. Við berum ábyrgð á að fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur í samstarfi við önnur ríki og miðlum þeim upplýsingum til bandamanna okkar í Evrópu og Bandaríkjunum. Samstarf NATO-ríkjanna hefur aukist í Norður-Atlantshafi. Undan því getum við ekki skorast. Við erum háð því að aðrar þjóðir komi okkur til varnar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um það að starfa samkvæmt þjóðaröryggisstefnunni. Hluti hennar er aðildin að NATO.

Herra forseti. Tilefni þessarar sérstöku umræðu eru fréttir þess efnis að utanríkisráðherra hafi lagt til, í apríl síðastliðnum í ráðherranefnd um ríkisfjármál í tengslum við fjáraukalög, uppbyggingu fyrir Atlantshafsbandalagið, NATO, í Helguvík á Suðurnesjum. Málið verður vart skilið á annan veg en að þetta hafi ráðherra gert til að tryggja betur stöðu Íslands í eftirliti og vörnum Norður-Atlantshafsins. Jafnframt hefur komið fram að tillagan hafi ekki náð fram að ganga. Þetta vekur upp áleitnar spurningar, ekki síst þá hvort ríkisstjórnin sé með því að hverfa frá þjóðaröryggisstefnunni sem hún hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Því verður að svara. Því verður að svara hvers vegna tillaga utanríkisráðherra var felld.

Eftirfarandi hef ég lagt fyrir hæstv. ráðherra: Ráðherra geri grein fyrir þeim varnartengdu verkefnum á Suðurnesjum sem voru rædd í ráðherranefnd um ríkisfjármál en ákvörðun var ekki tekin um að ráðast í. Hvernig tengjast þessi verkefni annars vegar Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin og hins vegar þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland? Hvert er umfang framkvæmdanna, framkvæmdatími, heildarkostnaður og kostnaðarskipting? Hver er áætlaður starfsmannafjöldi á framkvæmdatíma? Hvernig verða mannvirki nýtt og hversu mörg störf tengjast þeim til frambúðar? Einnig óska ég eftir því að ráðherra greini Alþingi frá því hvort frumkvæði að málinu hafi komið frá NATO.