150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[15:54]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Ég fagna því að fá að eiga orðastað við hv. þingmann og aðra hv. þingmenn um þessi mikilvægu mál sem snúa að vörnum og öryggi landsins. Tilefnið eru tillögur mínar um átaksverkefni í ljósi efnahagslegra afleiðinga heimsfaraldurs.

Þann 19. mars 2020 voru tillögur sendar fjármálaráðuneytinu þar sem annars vegar var lagt til að íslensk stjórnvöld legðu til 250 millj. kr. á ári á tímabilinu 2021–2025 auk 125 millj. kr. í ár, samtals 1.450 millj. kr., til endurbóta á hafnaraðstöðunni í Helguvík. Hins vegar lagði ég til að framkvæmdum við gistirými á öryggissvæðinu í Keflavík yrði flýtt. Það hefði falið í sér 330 millj. kr. aukningu framlaga til verkefnisins á árunum 2021–2022 en heildarupphæðin hefði verið óbreytt.

Flestar þjóðir heims, einnig ríki Atlantshafsbandalagsins, verja háum fjárhæðum ár hvert til varnarmála. Viðhald og endurnýjun á varnarbúnaði kostar sitt, að ekki sé minnst á fjárfestingu í nýrri tækni. Við Íslendingar erum ólík flestum öðrum ríkjum í heiminum, herlaus þjóð. Við getum leyft okkur að vera herlaus þjóð af því að við njótum þeirrar verndar sem felst í sáttmála Atlantshafsbandalagsins og varnarsamningnum við Bandaríkin. Þetta eru tvær meginstoðir okkar þjóðaröryggis eins og ályktun Alþingis um þjóðaröryggisstefnu frá 2016 felur í sér.

Virðulegi forseti. Varnarsamningur við Bandaríkin er ekki viljayfirlýsing. Hann felur í sér skuldbindingu öflugasta herveldis allra tíma um að verja Ísland. Það verður ekki gert með orðum á blaði. Til að hægt sé að framkvæma samninginn þurfa tilteknar forsendur að vera til staðar, tiltekinn aðbúnaður og fullnægjandi mannvirki til að hægt sé að hrinda herverndinni í framkvæmd ef á skyldi reyna. Þegar hættuástand skapast er of seint að huga að viðhaldi og endurbótum.

Nú standa yfir eða eru í undirbúningi framkvæmdir á og við öryggissvæðið við Keflavíkurflugvöll sem nema alls 13–14 milljörðum íslenskra króna. Þetta er mesta fjárfesting í varnar- og öryggismálum landsins á þessari öld enda er uppsöfnuð þörf fyrir viðhald og endurbætur mjög veruleg. Þessi verkefni munu skapa yfir 300 ársstörf hér á landi. Þau fela m.a. í sér endurnýjun á kerfum íslenska loftvarnakerfisins og uppfærslur á ratsjár- og fjarskiptastöðvum, viðhald flugbrautakerfis, viðgerðir og endurbætur á flugvélastæðum og flugskýlum og byggingu þvottastöðvar. Með þessum framkvæmdum er ekki um að ræða neins konar eðlisbreytingu á þeim viðbúnaði sem til staðar er hér á landi eða þeirri starfsemi sem þátttakan í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin felur í sér.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki hafið formlega viðræður við bandarísk stjórnvöld eða Atlantshafsbandalagið um aðrar framkvæmdir en þær sem greint hefur verið frá. Á hinn bóginn er ljóst að mörgum mannvirkjum á öryggissvæðinu hefur ekki verið haldið við í áratugi. Ef þau eiga að nýtast liði bandalagsríkja sem kemur reglulega hingað til lands eða á hættutímum þarf að ráðast í viðgerðir. Það er mat þeirrar herstjórnar sem ber ábyrgð á vörnum landsins að slíkar framkvæmdir séu orðnar tímabærar.

Virðulegi forseti. Engin þjóð getur leyft sér andvaraleysi þegar kemur að varnar- og öryggismálum. Eftir ólögmæta innlimun Rússlands á landi Úkraínu á Krímskaga árið 2014 hefur orðið hugarfarsbreyting meðal nágranna- og bandalagsríki okkar. Ég nefni sem dæmi æ umfangsmeiri þátttöku Svía og Finna í starfi Atlantshafsbandalagsins. Báðar þjóðirnar standa utan bandalagsins en fáar þjóðir innan þess eru virkari þegar kemur að samráði og sameiginlegum æfingum á vegum bandalagsins. Það helst í hendur við hratt vaxandi norrænt samstarf í varnarmálum. Þetta er ekki tilviljun. Ógnirnar sem við er að glíma eru raunverulegar og í samstöðunni felst bæði vernd og fælingarmáttur. Öflugt varnarsamstarf er þannig líklegra en veikt til að viðhalda friði.

Virðulegi forseti. Umræddar framkvæmdir fælu ekki í sér aukið bolmagn eða nýtt hlutverk og þaðan af síður fasta viðveru erlends liðsafla. Þær eru allar í fullu samræmi við þjóðaröryggisstefnuna sem kveður á um að tryggja skuli að í landinu séu til staðar varnarmannvirki til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Öryggi Íslands sem herlausrar þjóðar verður ekki tryggt nema með virkri þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og með varnarsamningnum við Bandaríkin. Það er með þetta að leiðarljósi sem ég hef vakið máls á frekari framkvæmdum við öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli, þar með talið í Helguvík. Uppsöfnuð þörf fyrir viðhald og endurbætur er mikill og nú er rétti tíminn til að ráðast í slík verkefni að mínu mati, enda er gert ráð fyrir að stærstur hluti þessara verkefna sé fjármagnaður af okkar bandamönnum. Íslendingar geta ekki ætlast til að bandalagsríki standi við sínar skuldbindingar ef við tryggjum ekki lágmarksforsendur til þess.