150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:02]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Stækkun Helguvíkurhafnar eins og stungið er upp á telst hernaðaruppbygging og hún getur gagnast innlendum eða erlendum inn- og útflutningi, ekki hvað síst í augum umheimsins. Ef á að ræða slíka hugmynd og taka eitthvað lengra krefst það auðvitað nýs áhættumats sem nú er unnið í varnar- og öryggismálum og umræðu og álits þjóðaröryggisráðs. Einhver ráðherranefnd ríkisfjármála er ekki farvegurinn til slíkrar afgreiðslu.

Herra forseti. Nú hefur spenna aukist á norðurslóðum, við viðurkennum það. Rússar standa í aukinni uppbyggingu og umsvifum, NATO og Bandaríkjamenn svara. Þetta eru þessi ping-pong áhrif sem eru hættuleg. Ísland hefur stuðlað að samvinnu og spennulækkun í Norðurskautsráðinu, í Þingmannaráðstefnu norðurslóða og í Norrænu víddinni og við eigum að halda fast við þá stefnu og sjá frekar fyrir okkur hæga stækkun Helguvíkur á samfélagsgrunni fyrir hefðbundnar siglingar en það sem hér er til umræðu. Við þurfum sem sagt að stunda spennulækkun en ekki spennuhækkun. Það er í þágu samfélagsins á norðurslóðum en ekki hermálayfirvalda í umræddum löndum.

Ég vil svo minna á að það er löngu kominn tími til þess að Alþingi fjalli um umtalsverðar breytingar, framkvæmdir og þess háttar sem lýtur að hernaðarframkvæmdum á vegum NATO, eins og að sjá um bókanir, viðbætur við varnarsamninginn og annað. Um það fjallar frumvarp hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem liggur fyrir þinginu. VG hefur líka lagt fram þingmál um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja og einnig að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum, ICAN-samninginn, og það er löngu tímabært.

Herra forseti. Það eru ekki vopnin sem nú duga jarðarbúum best heldur friðsamleg sambúð og alþjóðleg samvinna fyrir flest fólk.