150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég var undirbúin með aðra punkta en ég fagna því að hér tala stjórnarþingmenn mjög skýrt, annars vegar í þágu mjög skýrrar stefnu Íslands í gegnum árin sem var stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og hins vegar um að standa vörð um að við förum ákveðnar leiðir varðandi það hvernig við tryggjum okkar öryggis- og varnarhagsmuni. Það er í gegnum þjóðaröryggisráð og ég hef áður sagt það hér að mér finnst mjög skrýtið að þetta mál hafi ekki verið sent þangað, til utanríkismálanefndar eða komið með það inn í þingið. Hitt er að við erum ekki að leika okkur að því að blanda saman efnahagslegum hagsmunum, atvinnuhagsmunum og síðan öryggishagsmunum. Það hefur aldrei verið gert. Það vottar fyrir því núna. Ef það er eitthvað sem mér finnst standa eftir þessa umræðu varðandi hugsanlega og mögulega frekari uppbyggingu í Helguvík er að ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum hefur tekist tvennt, annars vegar að gera allt í einu óljósa varnar- og öryggisstefnu okkar Íslendinga sem hefur verið nokkuð skýr í gegnum tíðina. Hún er valtari á fótunum en áður. Síðan er hitt, að senda út mjög óviss, óræð og tvíræð skilaboð til Suðurnesjamanna. Mér finnst enginn sómi að því.

Ég gekk einfaldlega út frá því að hæstv. utanríkisráðherra hefði farið með málið inn í ráðherranefnd um ríkisfjármál á grunni hagsmunamats varðandi varnir og öryggi landsins. Núna er komið í ljós að svo var ekki. Ég hef spurt áður hvort menn muni þá beita sér, hvort sem er innan Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins, fyrir því að þetta mál fari (Forseti hringir.) inn í þjóðaröryggisráð á þeim forsendum að það sé mikilvægt að fara fram með málið á grundvelli öryggishagsmuna. Öryggishagsmunirnir eru orðnir miklu meiri og víðtækari en þeir voru árið 1949. Við erum að tala m.a. um norðurslóðir, umhverfisþættina sem eru þar, vöktun, rannsóknir o.fl. Það er ný hugsun (Forseti hringir.) í varnar- og öryggismálum og við verðum að taka fullan þátt í því á grunni þess samstarfs sem við erum í og það er m.a. á grundvelli NATO.