150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða málefni varnarmála á Suðurnesjum. Ég veit ekki hvort það er eðlilegt að mörgu leyti en það vill svolítið bregða við hræsni hjá okkur í varnarmálum vegna þess að við erum í NATO, við erum í varnarsamvinnu og við eigum að haga okkur þá þannig. Annaðhvort eigum við að vera með eða ekki.

Það er alveg fáránlegt ef við förum að horfa á þetta frá því sjónarhorni að við ætlum að láta mannvirki og annað drabbast niður. Núna er komin upp sú staða að hægt er að fara að gera við og bæta. Við þekkjum reynsluna af því hvernig staðan er núna á gamla hersvæðinu. Þar er kominn skóli, þar er komið fullt af vinnu og þar er húsnæði. Við myndum ekki vilja vera án þess og þess vegna segi ég fyrir mitt leyti að við eigum að taka okkur til og segja já við allri þeirri uppbyggingu sem hægt er að fá í svona málum. Mér finnst eiginlega sjálfsagt að ef þarf að gera einhverja uppbyggingu, t.d. við höfnina í Helguvík og það svæði, eigum við bara að vinna í því og gera það. Við hljótum að sýna þeim sem eru með okkur í Atlantshafsbandalaginu þá virðingu að við séum þar inni til að gera hlutina en ekki bara til að vera með og gera ekki neitt.

Það er mjög undarlegt að hugsa til þess að við skulum svo sem vera í hernaðarbandalaginu en einhvern veginn stinga hausnum í sandinn og þykjast ekki vera í hernaðarbandalaginu. Annaðhvort erum við þar inni eða úti og við eigum bara að vera okkur til sóma. Ég ber það mikla virðingu fyrir þeim sem eru með okkur þarna að við tölum hreint út.