150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:23]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við erum hér í sérstakri umræðu sem sannarlega er mjög sérstök, umræða um eitthvað sem varla hefur átt sér stað formlega nema á síðum Morgunblaðsins og í óformlegum samtölum og hugmyndum þingmanna og ráðherra utanríkismála. En öryggis- og varnarmál eru ekki mál sem hafa skal í flimtingum eða veifa framan í örvæntingarfullt fólk sem hefur misst lífsviðurværi sitt eða sér fram á það. Það er ekki fallegur leikur gagnvart íbúum Suðurnesja sem eiga betra skilið en að þeim sé boðið upp á ósjálfbærar og ófrumlegar hugmyndir að efnahagsuppbyggingu á svæðinu í kjölfar Covid-19, hugmyndir sem hverfast um enn frekari uppbyggingu hernaðarmannvirkja í Helguvík.

Öryggis- og varnarmál og hvers kyns hugmyndir um aukin hernaðarumsvif á Íslandi í formi fleiri bygginga eða viðveru hermanna verða ekki að veruleika nema með formlega réttum leiðum og með lýðræðislegri umræðu á Alþingi. Það vita þingmenn mætavel, alveg eins og þingmenn vita vel hver stefna Íslands er í málefnum norðurslóða, sem er m.a. að vinna gegn hvers konar hervæðingu norðurslóða. Hugmyndir um enn frekari uppbyggingu hernaðarmannvirkja í Helguvík ríma því afar illa við áherslurnar á því sviði. Allar hugmyndir um enn frekari uppbyggingu á hernaðarmannvirkjum á Suðurnesjum eru í bága við áherslu Íslands í formennsku í Norðurskautsráðinu og sömuleiðis í bága við megintilgang Norðurskautsráðsins sem var stofnað í þeim tilgangi að stuðla að sjálfbærri þróun og friðsamlegri samvinnu ríkja á svæðinu.

Ein af megináherslum Vinstri – hreyfingarinnar græns framboðs í utanríkismálum er skýr; áherslan á friðsamlegar lausnir og andstæða við hvers kyns þátttöku Íslands í hernaðarbandalögum, hernaðarbrölti eða uppbyggingu hernaðarmannvirkja. Ég vil minna á það sem hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað bent á og látið hafa eftir sér, að ekki skal blanda saman í sömu andrá efnahagsmálum og uppbyggingu hernaðarmála. Þar er ég henni sammála.

Herra forseti. Nú reynir verulega á að við vöndum okkur í viðbrögðum við uppbygginguna eftir Covid-19 og það skiptir máli hvernig við tölum. Stórkarlalegar hernaðarframkvæmdir eru ekki lausnin, enn meiri uppbygging hernaðarmannvirkja er alls ekki svarið heldur nýsköpun, umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir í atvinnumálum og fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir sem flesta, (Forseti hringir.) konur og karla, unga sem aldna. Um leið og ég skil mjög vel að Suðurnesjamenn reyni að finna lausnir á þeim mikla efnahagsvanda sem blasir við þeim (Forseti hringir.) og styð þau fyllilega í því minni ég á og hvet þau til að styðja við hvers kyns sjálfbærni og fjölbreytileika (Forseti hringir.) í atvinnumálum sem þau sjálf hafa komið fram með, eins og tillögur hæstv. sveitarstjórnarráðherra bera vitni um. Ég hvet þau til dáða í því.