150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra umræðuna. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að engin þjóð getur leyft sér andvaraleysi í öryggis- og varnarmálum. Ráðherra gat þess að framkvæmdirnar sem við höfum rætt um, m.a. í Helguvík, byggist á uppsafnaðri þörf og séu í fullu samræmi við þjóðaröryggisstefnuna. Það er mjög mikilvægt að fá þetta fram hér frá hæstv. ráðherra. Eftir stendur hins vegar hvers vegna tillaga hæstv. ráðherra hafi verið felld þegar hún er í fullu samræmi við þjóðaröryggisstefnuna og ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Ósamstaða innan ríkisstjórnarinnar hefur mögulega, og greinilega held ég, stöðvað þessar framkvæmdir og þá nauðsynlegu öryggisuppbyggingu og viðhald á varnarmannvirkjum sem nauðsynlegt er að ráðast í. Ef ekki er staðið við þjóðaröryggisstefnuna er það mjög alvarlegt mál.

Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Margt gott kom fram í henni. Ég er ekki sammála öllum. Mesta athygli vakti að mínum dómi ræða formanns Samfylkingarinnar, Loga Einarssonar. Það er greinilegt að Samfylkingin horfir ekki til skuldbindinga okkar eða mikilvægis varnarsamstarfsins ef marka má ræðu hans og er það greinileg stefnubreyting af hálfu Samfylkingarinnar.

Hæstv. ráðherra hefur það nú í hendi sér að fylgja þjóðaröryggisstefnu Íslands af staðfestu og treysta varnir landsins og skapa um leið mikilvæg störf á erfiðum tímum á Suðurnesjum. Ég þakka umræðuna.