150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:37]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera mjög sérstök umræða. Hún segir okkur eitt, að hér þurfi að ræða þessi mál betur, það liggur alveg fyrir. Það hvernig menn ganga fram er með slíkum ólíkindum. Hvað eru menn að vísa í þegar þeir segja að viðskipti og varnarmál fari ekki saman? Ég held að allir séu sammála því í prinsippinu, en eigum við að fara aðeins yfir það hvernig við nýtum þau varnarmannvirki sem hér eru? Hver haldið þið að hafi byggt flugbrautirnar á Keflavíkurflugvelli? Hvað með ratsjárkerfið? Hvað með ljósleiðara? Hvað með höfnina í Helguvík?

Það er lítið um svör þegar ég lít yfir þingheim. (Gripið fram í: Vildirðu svör?) Þetta er allt saman nýtt meira og minna í borgaralegum tilgangi og hefur alltaf verið. Þegar við erum að fara í framkvæmdir fyrir á annan tug milljarða er auðvitað betra að við séum að gera það núna en að hafa gert það fyrir tveimur árum. Við lifum í mannheimi.

Allir vita, virðulegi forseti, það þarf engan sérfræðing til þess, að ef mannvirkjum er ekki viðhaldið í áratugi kemur að viðhaldi. Þegar menn leggja það upp eða ræða það, hvort sem það eru einhverjir á Suðurnesjunum eða í þingsal, og reyna að gera það tortryggilegt stenst það enga skoðun, hvað þá súrrealískar samsæriskenningar um Finnafjörð.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið gengið fram eftir þjóðaröryggisstefnunni. Því verður haldið áfram. Ég mun hafa enn meira frumkvæði að því að ræða þessi mál því að það er full þörf á því, hvort sem það er í þjóðaröryggisráði eða annars staðar. Það er algjörlega útilokað, virðulegi forseti, eftir þessa umræðu að reyna að leiðrétta á tveim mínútum allar þær rangfærslur sem komu fram, svo mikið er víst.