150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta hlýtur eingöngu að varða minnstu sveitarfélögin. Ég held að þar séu mestu vandræðin við að fá þetta notendaráð til að virka. Ég hef líka oft á tilfinningunni að fjárhagslega noti minni sveitarfélög jafnvel tækifærið, á þessum forsendum, til að hafna þessari aðstoð. Það getur orðið svolítill baggi og mjög erfitt fyrir þau að uppfylla þessar kröfur. Ef það væri hreinlega í lögunum að hafa beri samráð við notendaráð eða sveitarfélagið geta þau ekki komið sér undan og verða bara að gjöra svo vel að taka á málum og gera eitthvað. Ég er mest hræddur um að ef þetta verði reglugerð geti þau sloppið eina ferðina enn og það yrði bagalegt ef svo yrði.