150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra varð tíðrætt um gildandi rétt, skráð lög og að enn þurfi að bæta við einni reglugerðinni. Við búum hér við reglugerðafargan. En mig langar að benda á eina skráða reglu, grundvallarlög, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, 1. mgr. 76. gr., þar sem stendur skýrum stöfum:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Við höfum ekki fylgt þessari grein. Við erum enn að heykjast á því að berja niður höft og hindranir úti í samfélaginu og ekki nóg með það, við vogum okkur að setja kvóta á einstaklinga sem þarfnast NPA-þjónustu. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Væri ekki nær að girða þá bara enn betur fyrir þetta með lagasetningu í stað reglugerðar, í stað þess að vera komin með enn einn milliliðinn? Við þekkjum hvernig hefur gengið til með þessar frábæru Sjúkratryggingar Íslands þegar aðilar eru í fargani og pappírsvinnu við að reyna að koma upplýsingum til Sjúkratrygginga Íslands, til að sækja þann rétt sem þeim hefur þó verið tryggður í lögum. Við ætlum að bæta enn einni reglugerðinni við.

Ég spyr hæstv. ráðherra líka: Hvað eru raunverulega margir sem þurfa á þjónustunni að halda og hvað eru raunverulega margir sem fá hana? Mig langar að heyra hæstv. ráðherra segja okkur það hér. Og í framhaldinu: Er ekki um hreina mismunun að ræða þegar við getum ekki veitt öllum þjónustuna? Er það ekki algjört brot á jafnræði?