150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[17:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Já, ég er með ýmsar hugmyndir. Ég myndi fyrst og síðast bara fylgja gildandi rétti. Ég myndi fyrst og síðast fara að 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sem er ákaflega skýr þegar kemur að því að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi í samfélaginu. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hversu margir það eru sem standa út af og fá ekki umrædda þjónustu. Ég veit ekki alveg hvað átt er við þegar hæstv. ráðherra segir að hér sé verið að reyna að koma — og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að segja mér hvað ég er að lesa í frumvarpinu. Staðreyndin er nákvæmlega þessi: Nú erum við að bæta um 200 milljónum af vangreiddu fé, skilst mér, til Reykjavíkurborgar til að hún geti reynt að halda a.m.k. það samkomulag sem hún hefur verið að gera til að halda þessari þjónustu úti. Það eru ekki bara litlu sveitarfélögin sem verða út undan. Það eru líka þau sem hafa setið eftir, þau sem hafa ekki einu sinni fengið greitt til þessa nema part af því samkomulagi sem ríkisvaldið hefur gert varðandi þjónustuna.

Ég spyr hæstv. ráðherra aftur: Er eðlilegt að mismuna fólki sem þarf að njóta þjónustunnar með því að setja á kvótakerfi þannig að sumir fái en aðrir ekki?